141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

umræða um dagskrármál og störf þingsins.

[11:26]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hef setið í sex ár á Alþingi. Ég man ekki eftir því að tveir þingmenn úr sama liði hafi komið hingað undir þessum lið og rætt sérstaklega afstöðu einhvers annars þingmanns sem situr úti í sal. Ég vil bara spyrja stjórnarliða hvort þetta sé það sem koma skal í þessum þingsal. Er ekki fullkomlega eðlilegt að við spyrjum viðkomandi þingmann út í afstöðu hans ef við höfum eitthvað út á hann að setja? Ég held að mönnum finnist það fullkomlega eðlilegt.

Hér var öllu snúið á hvolf og talað um að þetta væri fullkomlega eðlilegt, einungis væri verið að spyrja út í afstöðu Vinstri grænna. Liggur hún ekki fyrir? Liggur ekki afstaða allra flokka fyrir, fyrir utan afstöðu eins þingmanns sem er bara að fylgja sannfæringu sinni? Ég held að það þurfi að taka upp í forsætisnefnd og ræða.