141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[11:58]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið þó að það hafi verið ófullkomið. Ég spurði afar skýrt um það hvort treysta mætti því að hv. þingmaður og Framsóknarflokkurinn mundi samþykkja breytingartillögu um auðlindaákvæði fyrir þinglok. Fyrir þinglok. Það skiptir öllu máli að við virðum það ferli sem hefur staðið mjög lengi. Auðlindaákvæði og tillögur um það hafa legið á borðinu ekki í nokkur missiri heldur hafa þau legið á borðinu frá árinu 2000, í þrettán ár, og umræðan um auðlindaákvæðið og þjóðareign hefur reyndar staðið frá því á sjöunda áratugnum hið minnsta.

Framsóknarflokkurinn samþykkti prýðilega ályktun að mínu mati 10. febrúar á landsfundi sínum, sem hljóðar svona, með leyfi forseta:

„Auðlindaákvæði verði sett í stjórnarskrá sem tryggja eign íslenska ríkisins og sveitarfélaga utan eignarlanda. Jafnframt verði lögfest hvað flokkast til auðlinda hér á landi og hverjar auðlindir Íslands eru, eins og kostur er.“

Það er nákvæmlega þetta sem verið er að gera í því auðlindaákvæði sem við erum með fyrir framan okkur. Þar er farið mjög vel í gegnum það og dregnir fram ýmsir þættir sem til dæmis voru í ágætri tillögu auðlindanefndar frá 2000 sem Framsóknarflokkurinn lagði einmitt til á dögunum að yrði notuð sem grunnur samkomulags. Þar eru ákveðnir hlutir sem stinga í augun, kannski fyrst og fremst ein setning að mínu mati, en það er samt vel hægt að nota þann grunn til að ná samkomulagi því að þar er margt sem sameinar okkur. En ég vil spyrja aftur og biðja um skýrt svar: Er þingmaðurinn tilbúinn að samþykkja að auðlindaákvæði verði tekið til atkvæða í þinginu áður en þingi lýkur?