141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar.

687. mál
[14:26]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna og víkja örlítið að einu efnislegu atriði varðandi samræmingu á starfsháttum hér við það sem gerist á Norðurlöndum. Eins og þingmaðurinn benti réttilega á erum við sammála um flest en ekki allt og ekki hvað varðar forvirkar rannsóknir, svo dæmi sé tekið. Hér segir, með leyfi forseta:

„Loks þarf að samræma löggjöf og reglur varðandi rannsóknir mála við hin Norðurlöndin til þess að tryggja að samstarf íslensku lögreglunnar við erlend lögregluyfirvöld gangi eðlilega fyrir sig og traust ríki á milli lögregluliða viðkomandi landa. Má hér nefna nauðsyn þess að færa ákvæði íslenskra laga um afhendingu gagna að regluverki nágrannalandanna. Styttri tímafrestir og skyld atriði takmarka möguleika íslenskrar lögreglu á að taka við gögnum frá erlendum löggæslustofnunum og hefur þegar skapað ákveðið vantraust.“

Ég vil ítreka þakkir fyrir umræðuna sem mér fannst mjög góð. Það er alveg rétt sem kom fram af hálfu margra þingmanna sem tóku þátt í henni að líta beri á þetta sem leiðarljós inn í vinnslu á löggæsluáætlun sem unnið er að, bæði til fjögurra ára og tólf ára. Í rauninni er merkilegast við skýrsluna og nefndarvinnuna að gerð er tilraun til þess að tengja saman áætlun og fjármagn og reyna að horfa raunsætt á málin með slíkum hætti. Það er vinnulag sem við höfum tamið okkur á ýmsum öðrum sviðum, sem m.a. er unnið að í innanríkisráðuneytinu og vísa ég þar til samgönguáætlunar. Þar er sett fram stefna og þar er sett fram markmið, þar er sett fram stefna og þar er sett fram framkvæmdaáætlun sem er tengd fjármagni. Þetta er vísir að slíkri vinnu og það er vel.