143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

störf þingsins.

[11:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar að viðra hérna við þingheim mikilvægi þess að það sé skoðanafrelsi í landinu og að lýðræðisleg gagnrýni megi vera sem víðast. Ég tek þetta upp vegna þess að sveitarstjórnarkosningar eru fram undan og það er vissulega þannig að margir óttast að hafa sterkar skoðanir á samfélagsmálum vegna þess að það getur haft áhrif á störf þeirra og frama jafnvel í starfi. Við þekkjum að það er víða, því miður, þöggun þegar koma fram sterkar gagnrýnisraddir á eitthvað sem miður fer í samfélaginu og við lesum það á síðum dagblaða og heyrum það sjálf. Ég þekki fjölda slíkra dæma og vil þess vegna undirstrika mikilvægi þess að fólk eigi sig sjálft hvar sem það er og hafi möguleika á að vera með málefnalega gagnrýna umræðu í samfélaginu án þess að það bitni á því með einhverjum hætti, starfi eða frama í starfi eða fjölskyldum þeirra.

Við þekkjum þá umræðu sem hefur verið um vísindamenn og háskólasamfélag í landinu. Í rannsóknum sem hafa verið gerðar í þeim geira er sýnt fram á að það er ákveðinn ótti við að stíga fram með faglegar skoðanir, við þau áhrif sem það hefur á starf viðkomandi vísindamanna innan stofnana ríkisins. Við þekkjum líka að það er gífurlega sterkt atvinnurekendavald víða í landinu sem hefur beitt sér mjög sterkt gagnvart því fólki sem er ekki sammála ýmsum málum, t.d. í fiskveiðistjórnarkerfinu okkar. Ég vara við því að menn gangi hart fram í þöggun í þessu samfélagi því að það á að vera lýðræðisleg umræða og hún á að vera uppi á yfirborðinu. Í þannig þjóðfélagi vil ég búa.