143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[14:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar vekja athygli á því sem einhverjir þingmenn gerðu reyndar í gær að okkur finnst viðvera hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar af afar skornum skammti í þessari umræðu. Hér hafa ekki sést í umræðunni, hvorki í gær né í dag, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra né hæstv. forsætisráðherra. Reyndar held ég að megi fullyrða að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki tekið til máls í umræðum um þessi heimsmet sem eiga að vera, skuldamálin stóru. Hann hefur ekki verið við umræður um þau hér, hvorki í 1. umr. né nú við 2. umr. Mér finnst þetta vera verulegur ágalli og í raun og veru ámælisvert. Ég kem þeim skilaboðum mjög skýrt á framfæri við virðulegan forseta að mér finnst ekki hægt að halda þessum umræðum öllum áfram og klára þær, t.d. 2. umr. um bæði þessi stóru mál, án þess að forsætisráðherra láti svo lítið sem koma til umræðunnar þannig að hægt sé að leggja fyrir hann spurningar sem höfuðábyrgðaraðila á þessu máli. Ég mun ekki taka því þegjandi ef ekki fer að bóla á forsætisráðherra, í öllu falli þegar við tökum til við að ræða síðara málið, því ég hef spurningar fyrir hann að leggja.

Það væri sömuleiðis mjög æskilegt að hafa fjármála- og efnahagsráðherra hér við þegar við ræðum hina gríðarlega stóru fjármálaþætti þessara ráðstafana, kostnaðinn sem lendir á ríki og sveitarfélögum og hvernig með hann á að fara og hvaða áhrif hann hefur. Það má út af fyrir sig mín vegna bíða til umræðunnar um seinna málið og þannig höfum við háttað því að við skilum okkar aðalnefndarálitum um það mál. Það er þó erfitt að slíta þetta að þegar við ræðum séreignarsparnaðarfrumvarpið hér vegna þess að í ljós kemur að kostnaðurinn sem lendir á ríki og sveitarfélögum til samans er ívið meiri ef eitthvað er út af þessu máli heldur en hinu. Þar eru þó klipptir og skornir 80 milljarðar plús nokkur hundruð milljónir í framkvæmdakostnað við höfuðstólsniðurfærsluna, en með breytingartillögum meiri hlutans, nái þær fram að ganga, sem stækka og auka umfang séreignarsparnaðaraðgerðarinnar, er kostnaðurinn við hana fyrir ríki og sveitarfélög til samans sennilega orðinn meiri en við höfuðstólslækkunina.

Samkvæmt greinargerð frá fjármála- og efnahagsráðuneyti var talið að kostnaður hjá ríkissjóði gæti orðið allt að 43 milljarðar vegna séreignarsparnaðarhlutans og hjá sveitarfélögunum allt að 21 milljarður, en það er ljóst að nú þarf að uppfæra og hækka þessar tölur umtalsvert, sennilega upp í á milli 50 og 60 milljarða hjá ríkinu og hátt í 30 milljarða hjá sveitarfélögunum með breytingartillögum meiri hlutans, nái þær fram að ganga. Þá er það ekki orðinn neinn smáreikningur, herra forseti.

Satt best að segja finnst mér undarlega hljótt um þátt sveitarfélaganna í þessu. Ef það er svo, sem ég tel að megi færa sterk rök fyrir, að kostnaðurinn sem lendir á sveitarfélögum á næstu þremur árum og síðan í töpuðum framtíðarútsvarstekjum á næstu tveim til þremur áratugum sé að nálgast hátt í þrjá tugi milljarða kr., skil ég ekki hversu hljótt er um það í samskiptum ríkis og sveitarfélaga og nú í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga. Hvað er tekist á um í einstökum sveitarstjórnum þegar verið er að hnoða þar saman fjárhagsáætlun? Það er spurningin um 10 eða 50 milljónir í þetta eða hitt, hvort frístundakort á að vera 10 þúsund kall eða 20 þúsund kall á vetri eða eitthvað þvíumlíkt. Munar þá ekki um að tekjur af þessari stærðargráðu, að vísu á löngu árabili, hverfi út úr myndinni hjá sveitarfélögunum? Og ekki bara hvaða tekjur sem er, þetta er útsvarið, þetta er megintekjustofn sveitarfélaganna í landinu sem verið er að skerða mjög verulega með þessum ráðstöfunum. Um 60% af skatttekjum sveitarfélaganna a.m.k. er útsvar, afgangurinn eru aðrar tekjur og greiðslur frá jöfnunarsjóði.

Þetta tekur heldur betur í. Með þumalputtareglu er Reykjavík með um 1/3 af þessu og ég geri ráð fyrir því, enda hafa þeir unnið þó nokkuð í því að reyna að meta sinn kostnað en slepptu því þó að áætla ávöxtun á fé í séreignarsparnaðinum, þannig að framtíðartekjutap borgarinnar er auðvitað meira en nafntölurnar í núinu á næstu þremur árum.

Í öðru lagi er það spurningin sem mér finnst að pólitískir ábyrgðaraðilar mála af þessu tagi verði að svara. Það er reikningurinn sem hér er sendur inn í framtíðina. Þetta er nákvæmlega þannig.

Hv. þm. Pétur Blöndal, sem reyndar hefur skilað afburðagóðu nefndaráliti í hinu málinu, hefur oft verið hér hrópandinn í eyðimörkinni og talað um að menn þurfi að sýna aukinn aga og aukna ábyrgð. Hann hefur nefnt oftar en ég kem tölu á að horfast þurfi í augu við til dæmis ábyrgð ríkisins á lífeyrisskuldbindingum opinberra starfsmanna og hvernig menn ætla að takast á við framtíðarskuldbindingar í B-deild LSR upp á verulega háar fjárhæðir, hundruð milljarða. Það er allt rétt. En hvað er verið að gera hér? Það er verið að bæta stórum reikningi inn í framtíðina með þessu mikla vænta tekjutapi ríkis og sveitarfélaga á næstu árum. Við þurfum að takast á við það og skoða það við aðra hluti.

Ég vil þá enn fremur víkja aftur að skilgreiningum á heimilum sem ég hef að vísu því miður ekki haft nægan tíma til að grafa mig ofan í en áhugi minn hefur kviknað á að gera betur í umræðum um þessi mál í gær og að undanförnu. Það er þessi alhæfing um heimilin, að með þessum aðgerðum sé verið að gera eitthvað fyrir heimilin í landinu og við sem höfum efasemdir um þetta séum vondir menn og viljum ekki gera neitt fyrir heimilin.

Á hverju byggir þessi skilgreining? Er hún byggð á því að öll heimili í landinu búi í þungt skuldsettu eigin húsnæði? Það mætti ætla það því aðgerðin tekur til þeirra sem eru í eigin húsnæði og með íbúðalán sem stofnar rétt til vaxtabóta og ekki annarra. Allir aðrir eru meira og minna teknir út undan. (Gripið fram í: 70 þúsund heimili.)

Ég gef mjög lítið fyrir tal um að leigjendur, öryrkjar og aðrir slíkir muni í stórum stíl drífa sig í séreignarsparnað til að hafa út úr þessu kerfi í gegnum það. Það verður ekki mikill hvati fyrir þá og ekki miklir möguleikar á því ef engar tekjur eru eftir þegar búið er að draga fram lífið frá mánuði til mánaðar. Halda menn að fólk sem býr í félagsbústöðum, öryrkjar hjá hússjóði Brynju eða námsmenn yfirleitt og aðrir slíkir sem lifa á námslánum, sé líklegt til að fara séreignarsparnaðarleiðina? Nei, sumir geta það ekki ef þeir eru ekki á vinnumarkaði og aðrir hafa bara ekki afkomu til þess.

Ég fór að glugga í ritið Landshagi. Þar má sjá mjög fróðlega flokkun á landsmönnum sem eru núna 325 þúsund, plús mínus, í einhleypa, í þá sem eru giftir, í þá sem eru í sambúð, þá sem eru fráskildir, þá sem eru einstæðir og án barna, einstæðir með börn o.s.frv. Kemur í ljós þegar flokkunin er skoðuð að þetta er mjög margbrotið. Það liggur fyrir að um fjórðungur landsmanna býr í leiguhúsnæði. Það hlutfall hefur hækkað skarpt undanfarin ár, m.a. vegna þess að margir hafa misst húsnæði sitt og farið í leiguhúsnæði í staðinn. Mjög fáir hafa ráðið við það að koma sér upp eigin húsnæði og lítið framboð hefur verið á því á undanförnum árum. Upp undir annar eins fjöldi, a.m.k. 20%, býr í eigin húsnæði en skuldar ekki í því, er búinn af þrautseigju að ganga í gegnum allar sveiflur undanfarinna ára og áratuga, misgengi og hvað það er, hefur þrjóskast við og borgað upp skuldirnar og býr í sínu húsnæði skuldlaust. Þá erum við komin í 45%. Býr þá afgangurinn, 55%, í skuldsettu eigin húsnæði? Nei, það er nefnilega ekki þannig, það er langur vegur frá því. Mengið er stærra en það.

Námsmenn búa á stúdentagörðum og einhverjir þeirra eru úti á leigumarkaðnum og teljast með þar. Einhverjir eru lögráða og fullorðnir en eru enn þá í heimahúsum. Einhverjir eru í námi erlendis. Það býr fjöldi fólks á sambýlum. Við lögðum niður allar stóru stofnanirnar fyrir fatlaða og almennt fór það fólk á sambýli. Það er ekki með þarna, en það eru heimili. Það eru heimili þess fólks sem er þá utan við þetta mengi. Þeir sem búa í húsnæðissamvinnufélögum, þeir sem búa í búseturéttaríbúðum, þeir sem búa í félagsleiguíbúðum eru allir utan við þetta mengi. Þegar betur er að gáð fer því víðs fjarri að þessi alhæfing á því hvað sé heimili í landinu og njóti góðs af þessum ráðstöfunum í þeim skilningi, þessum þrönga skilningi sé rétt. Hún er afvegaleiðing umræðunnar. Myndin er allt önnur. Við skiljum miklu stærri hluta þjóðarinnar algerlega eftir í þessum dýru og óskilvirku aðgerðum, líka í þessum séreignarsparnaðarhluta. Þannig að það mælir fátt með því.

Varðandi sparnað, frú forseti, sem mjög fróðlegt væri að ræða og stöðu lífeyrissjóða í þeim efnum, er ég sammála því að mikilvægt er að stuðla að því að fólk, sérstaklega ungt fólk, geti átt traust úrræði til að leggja eitthvað fyrir ef það vill leysa sín húsnæðismál þannig að reyna að komast yfir eigin íbúð, þá þarf það að eiga höfuðstól til þess. En ég held við eigum ekki að blanda því saman við annað, hvort sem það er skuldavandi eða greiðsluvandi þeirra sem þegar eru í húsnæði. Skoðum frekar hvernig við tökum (Forseti hringir.) upp kerfi skilvirks húsnæðissparnaðar sem sérstaklega er hugsaður fyrir ungt fólk og komandi kynslóðir til þess að auðvelda því húsnæðisöflun. Að mínu mati ætti það að vera hlutlaust (Forseti hringir.) kerfi sem gerir ekki greinarmun á því hvort fólk fer svo seinna meir á leigumarkað, í búseturéttaríbúðir eða kaupir eigin íbúð.(Forseti hringir.)

Af því að þetta reyndust svona stuttar tíu mínútur, frú forseti, held ég að ég verði að óska eftir því að verða settur á mælendaskrá aftur.