143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:28]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Framsóknarflokkurinn, eða í það minnsta hæstv. forsætisráðherra talaði um það í aðdraganda kosninga að það ætti bara að snúa upp á þá í hrægammasjóðunum og fá þá til að semja. Sambærileg rök komu til dæmis frá meðþingmönnum mínum í Hreyfingunni þegar verið var að tala um hvernig fá ætti fé til baka frá þeim sem hálfpartinn stálu því, til að leiðrétta hlut þeirra sem fóru illa út úr hruninu.

Ég hef svo sem ekki neina lausn á því hvernig Framsóknarflokkurinn eigi að framfylgja kosningaloforðum sínum. Ég get ekki ráðlagt ykkur meira en það sem Framsóknarflokkurinn lagði til fyrir kosningar í fjölmörgum ritum og ræðum. Þá komu fram alls konar teiknimyndir af þessum leiðum, þar voru oft notuð mjög sterk orð um hvernig ætti að ná í þessa peninga. Talað hefur verið um að neita að borga ef ekki væri fenginn afsláttur o.s.frv. Ég hef alltaf sagt: Ísland er pínulítið, þetta eru pínulitlar upphæðir fyrir hrægammasjóðina, þeir geta beðið eins lengi og þeim sýnist. Mér fundust þetta aldrei sannfærandi rök, hvorki frá fyrrverandi samþingmönnum mínum né frá Framsóknarflokknum. Maður veit svo sem alveg hvernig svona risastór hrægammafyrirtæki fúnkera. Við erum bara dropi í hafinu fyrir þeim og þau geta beðið eins lengi og þeim sýnist.