143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:44]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi svör. Nú í seinni hluta þessa samtals langar mig aðeins að fara inn á það sem hv. þingmaður kom inn á, að það geta ekki allir nýtt séreignarsparnaðinn. Þegar ég horfi á þetta verkefni reyni ég að sjá á þau fjölmörgu verkefni sem við förum í meðfram þessu. Eins og hv. þingmaður talaði um verður að horfa á öll þessi verkefni samhliða og vinna þau samhliða.

Hv. þingmaður talaði um að grunnhugmyndin væri góð sem við ræðum hér, en eins og ég kom inn á áðan þá er þetta ekki ný hugmynd. Ég hef horft á ættingja, vini og fólk í kringum mig vera nálægt því að missa hús sín og bíla og flytja úr landi til þess að forðast ástandið hérna. Telur hv. þingmaður ekki að ef einhver heimili geta eða vilja á einhvern hátt nýta sér þau úrræði sem við ræðum hér, hvort sem við þurfum að ræða þau frekar eða annað, og þau leiða til góðs, að þetta sé þá skref í rétta átt fyrir þau heimili?