143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fína yfirferð yfir málið. Hv. þingmaður kom vel inn á kostnað sem sveitarfélögin verða fyrir og vissulega er rætt um. Ég vil benda á nefndarálit meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar um áhrifin á sveitarfélögin, kafla á bls. 2. Þar er gerð grein fyrir þeim fjárhæðum og ekki verið að fara í neinar grafgötur um það.

Ég vil koma inn á það að við erum að tala um næstu 40 árin, og þetta dreifist misjafnlega, þ.e. þetta eru fórnaðar tekjur sveitarfélaga af lífeyrissparnaðarskattgreiðslum til næstu 40 ára. Þetta dreifist mismunandi eftir því hvort við erum að tala um húsnæðiseigendur eða þá sem nýta sér b-liðinn, sem er þá úrræði til öflunar húsnæðis til framtíðar.

Vissulega fara sveitarfélögin, eins og greint er frá, á mis við tekjur. En á móti kemur að eign myndast í húsnæði fólks og sveitarfélögin eru auðvitað ekkert annað en íbúarnir sem þau byggja. Væntanlega eru þá heimili sveitarfélaganna minna skuldsett, minni pressa verður á félagslegt kerfi sveitarfélaganna o.s.frv.

Ég spyr hv. þingmann hvort hún sjái ekki kostina við það að gefa fólki færi á að spara þannig og ná niður skuldum sínum gagnvart sveitarfélögum.