144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er alveg sjálfsagt að greiða atkvæði um dagskrártillögu eins og þá sem hér er fram komin um hvort við eigum að ljúka umræðunni eða ekki. Það skýtur reyndar dálítið skökku við að þeir sem rætt hafa þetta mál í marga daga virðast ekki vilja ræða það núna og vilja koma því út af dagskrá. En það er sjálfsagt að greiða atkvæði um það og vonandi virða menn þá niðurstöðuna, að það geti þá orðið ef meiri hluti er fyrir því að halda áfram umræðunni og ljúka henni.

Ég ætla ekki að fara aftur yfir það hvernig haldið var á þessu máli á síðasta kjörtímabili, ég gagnrýndi það á sínum tíma. En meiri hluti þess tíma náði sínu fram með þeim aðferðum sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur m.a. skrifað um. (VigH: Heyr, heyr.) En nú er hér tillaga um að gera þetta með öðrum hætti og spurningin er: (Gripið fram í.) Getur þingið leitt fram vilja meiri hlutans í málinu? Það er sú spurning sem ég held að þjóðin sé að spyrja sig. Er mögulegt fyrir þingið að afgreiða eitt mál eftir vikuumræðu eða svo eða getur þingið það ekki? (Gripið fram í.)