144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:19]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég styð þá dagskrártillögu sem hér er komin fram um að vísa málinu frá, af dagskrá og taka brýn mál á dagskrá. Ég styð það vegna þess að við höfum áður lent í svona krísu á Alþingi, meðal annars vegna mála sem hafa komið frá atvinnuveganefnd, hér má nefna fisk og veiðigjöld, kerfisáætlun raforkukerfisins o.fl., þar sem verið hafa miklar umræður og miklar deilur. Þá hafa menn tekið mál á dagskrá, vísað því aftur til nefndar til að reyna að komast að sátt í því.

Nú finnst mér miklu fleiri stjórnarliðar vera farnir að tala eins og hv. þm. Ásmundur Friðriksson gerði í gærkvöldi. Umhverfisráðherra styður ekki þessa tillögu og umhverfisráðuneytið segir að ferlið sé ólöglegt, að Alþingi geti ekki gert svona breytingartillögu. Í nafni sátta held ég að það eigi að samþykkja þessa tillögu og vísa henni til nefndar. (Forseti hringir.) Við skulum setjast yfir það hvort ekki sé hægt að finna sátt í málinu.