144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

húsnæðismál.

[16:38]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir góða og málefnalega umræðu um þetta stóra mál, húsnæðismál, húsnæðisöryggi landsmanna. Það er þannig eins og oft er með stór mál að þá getum við öll verið sammála, t.d. setningunni um að öll heimili eigi að búa við húsnæðisöryggi. Ég held að við getum líka öll verið sammála því að aðeins þannig getum við sagt að Ísland sé raunverulega velferðarsamfélag. En hins vegar getum við síðan oft verið ósammála um nákvæmlega hvaða leiðir við eigum að fara til þess að nálgast þetta markmið.

Þetta er eitthvað sem við höfum verið að vinna að og stór skref hafa þegar verið tekin. Ég nefni allt að því 150 milljarða sem hefur verið ráðstafað til skuldaleiðréttingarinnar og í séreignarsparnaðarleiðina til þess að hjálpa fólki að spara fyrir húsnæði og lækka skuldir. Þetta hefur þegar haft áhrif. Greiðslubyrði er lækkandi, við sjáum að vaxtabætur eru að lækka og skuldahlutfall heimilanna að batna. Við erum líka sammála um að það þurfi að taka frekari skref.

Við sjáum það í könnunum sem gerðar hafa verið á Íslandi að kannski innst inni þá dreymir okkur flestöll um okkar eigið hús, kannski með garði, kannski með útsýni yfir sjóinn, en ég held að við hv. þingmenn verðum einfaldlega að horfast í augu við staðreyndir, ég tel að við séum að gera það í þessari umræðu, og það eru ekki allir í stakk búnir til þess að eignast eigið húsnæði þrátt fyrir ágætan húsnæðisstuðning hins opinbera í þeim tilgangi og hugsanlega með sérstökum stuðningi við fyrstu kaupendur. Þeim sem eru á leigumarkaði hefur fjölgað verulega og ekki hvað síst í þremur lægstu tekjuhópunum. Við sjáum líka í tengslum við samfélagsbreytingar að það er til fólk sem hefur einfaldlega hvorki áhuga á því að kaupa sér lítið hús né litla íbúð, það velur að leigja eða kaupa búseturétt vegna þess að það hentar því betur vegna þess að það flytur oftar, vegna þess að fólk skilur oftar en áður og vegna þess að það vill einfaldlega ekki skuldsetja sig líkt og fyrir hrun. Þannig að okkar hlutverk sem stjórnvalda er að hlúa að öllum þessum heimilum, bæði þeim (Forseti hringir.) sem vilja eiga sitt eigið heimili og þeim sem vilja leigja, en ekki hvað síst þeim sem eru efnaminni.