145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

meðferð sakamála.

659. mál
[17:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir hv. þingmaður fara inn á svolítið áhugaverðan punkt, sem er hvort eftirlitið með eftirlitsaðilanum sé pólitískt eða ekki. Nú fórum við aðeins inn á þetta í andsvörum hér áðan og þá tók ég fram að ég sæi ekki í fljótu bragði ástæðu til að hafa slíkt eftirlit pólitískt skipað, þ.e. umfram það sem þegar telst partur af hlutverki hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Hv. þingmaður fór yfir söguna og þá staðreynd að menn hafi verið hleraðir í pólitískum tilgangi og mig langar að heyra meira um það hvort hv. þingmaður sé viss um að slík pólitísk aðkoma mundi fyrirbyggja slíka hegðun. Ég velti því til dæmis fyrir mér ef aðstæður í samfélaginu væru á þann veg að tiltekinn hópur af fólki væri illa séður af öllum stjórnmálaflokkum, þar á meðal stjórnarandstöðu.

Ég spyr vegna þess að í fljótu bragði, eins og ég fór stuttlega yfir hér áðan, hefði ég haldið að þessu eftirliti með eftirlitinu væri best hagað þannig að það væri í mjög skýrum ramma, sem væri þá ekki eftir pólitískum viðmiðum — nema bara að því leyti sem allar manneskjur eru á einhvern hátt með sín pólitísku viðhorf, það er aldrei hægt að komast algjörlega frá því. Ég hefði haldið að það þyrfti að vera rammi sem yrði þá eins og kassi sem brjótast þyrfti út úr ef farið yrði út fyrir það sem gengur og gerist.

Ég mundi halda að best væri að hafa formlegt ferli á borð við það sem lagt er til hér, sjálfstætt eftirlit með lögreglu eða hvernig sem það væri útfært nákvæmlega. Það þyrfti að vera formlegt. Ef um væri að ræða starfsfólk sem vant væri tiltekinni starfsemi hefði ég haldið að minni líkur væru á því að hægt væri að misnota símahleranir í pólitískum tilgangi frekar en að bein pólitísk aðkoma væri að eftirliti með eftirlitinu.

Ég spyr með opnum huga því að mér finnst áhugavert að hv. þingmaður veki máls á þessu og full ástæða til að greina þetta betur.