150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

843. mál
[14:38]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Svo ég svari fyrst spurningunni um hvort þessi tími þurfi að vera lengri þá er sjálfsagt að skoða það ef aðstæður verða þannig. En þetta er auðvitað hugsað sem Covid-aðgerð á þessu ári og vonandi verður fyrirsjáanleiki og óvissa með þeim hætti að það þurfi ekki inn á mitt næsta ár.

Við skerum auðvitað ekki Kríu-hlutfall niður til að setja í mótframlagslán, heldur erum við að auka Kríu-fjárhæð úr 150 milljónum, sem áætlaðar voru, í 650 milljónir, þannig að við erum að hækka fjármagn sem fer í Kríu um hálfan milljarð miðað við það sem áður var áformað. Svo erum við að setja 500 millj. kr. í mótframlagslánin og rennum að einhverju leyti blint í sjóinn varðandi það hver áhuginn, eftirspurnin og þörfin verða fyrir þetta úrræði. En ég er mjög ánægð með þá tölu, 500 milljónir, og svo kemur í ljós hvernig það verður. En það er auðvitað viðbótarstuðningur. Séu menn með góða hugmynd í höndunum í svona ástandi ættu fjárfestar að sjá hag sinn í því að koma til móts við sprotafyrirtæki í þeim aðstæðum sem uppi eru. Allir þurfa að leggja hönd á plóg í því efni þannig að þetta úrræði ríkisins kemur til viðbótar við það og ætti þar af leiðandi ekki að vera forsendubrestur fyrir fjárfestinn. Þannig að ég er mjög sátt við breytinguna. Við töluðum um 150 millj. kr. á þessu ári í Kríu og við erum í dag með 1.150 milljónir, þar af 650 í Kríu og 500 milljónir í mótframlagslánin eða stuðnings-Kríu. Ég er mjög ánægð með þá upphæð og þær breytingar.