150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[15:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst varðandi réttindi starfsmanns sem þarf að upplifa það að vera sagt upp starfi, að vinnuveitandinn nýti sér það úrræði, fái stuðning frá skattgreiðendum til að standa undir a.m.k. hluta af þeim launakostnaði — þó aldrei meira en 85%, menn verða að hafa það í huga. Það er alveg skýrt samkvæmt 11. gr. þessa frumvarps að viðkomandi starfsmaður nýtur forgangs ef ráðið verður aftur í starfið og það sem meira er, hann skal halda öllum réttindum sem hann hafði unnið sér inn, þegar til uppsagnar kom, í samræmi við ákvæði kjarasamninga. Það er alveg skýrt í mínum huga, alveg skýrt ákvæði hér, að atvinnurekandi getur ekki, í skjóli þess að hafa sagt starfsmanni upp en boðið honum starf innan 12 mánaða, notað það sem sérstakt tækifæri til að ganga á þau réttindi og þau launakjör sem viðkomandi hafði unnið sér inn áður en til uppsagnar kom. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það sé alveg skýrt og menn hafi þetta í huga.

Þegar hv. þingmaður talar um launatengd gjöld þá geri ég ráð fyrir að hann sé fyrst og fremst að vísa í iðgjöld í lífeyrissjóði. Launatengdu gjöldin eru m.a. tryggingagjald og viðkomandi atvinnurekandi skal hafa staðið skil á þeim. Þetta kom til umræðu. Vandinn er sá, vegna þess að við erum að reyna að flýta þessu úrræði og úrvinnslu þess, að (Forseti hringir.) Skatturinn er að gera þetta og hann hefur ekki þær upplýsingar og það myndi draga úr því. En þetta er sjónarmið (Forseti hringir.) sem er gilt og sanngjarnt, og gæti vel komið til greina að gera þær breytingar frekar.