151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

skerðingar í almannatryggingakerfinu.

[13:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er hv. þingmaður enn og aftur að setja á dagskrá margbrotið og flókið viðfangsefni. Það sem ég hef bent á er að við höfum náð gríðarlega miklum árangri síðustu ár í að stórbæta kjör þeirra sem minnst hafa. Ég vek enn og aftur athygli á því sniðuga tæki, tekjusagan.is, tekjusögunni þar sem við getum séð hversu miklar breytingar við höfum gert á ráðstöfunartekjum allra Íslendinga. Við getum skoðað sérstaklega lífeyrisþega. Ég tek sem dæmi: Í neðstu tekjutíund þeirra sem eru 66 ára og eldri og búa í eigin fasteign erum við að horfa upp á breytingu sem talin er í margfeldi. Sambúðarfólk sem er í neðstu tekjutíund yfir tímabilið sem tekjusagan skoðar, frá 1991, hefur ekki bara bætt kjör sín eitthvað heldur hafa þau í raun og veru margfaldast, enda vorum við á alveg ómögulegum stað. En þetta er risavaxið verkefni, að tryggja sífellt fleira fólki á ellilífeyri viðunandi framfærslu, sérstaklega fyrir þá sem ekki hafa náð að nýta starfsævina til þess að byggja upp réttindi í almenna lífeyrissjóðakerfinu. Þetta er risavaxið verkefni. Hér spyr hv. þingmaður hvort mér þyki nóg að gert. Nei, við erum ekki hætt. Ég er bara að draga fram árangurinn af þeim áherslum sem við höfum beitt okkur fyrir. Þær hafa skilað sér í betri kjörum. Ef það er eitthvað eitt sem stendur upp úr skýrslu Stefáns Ólafssonar þá eru það þær ofboðslegu framfarir sem hafa verið á kaupmætti ráðstöfunartekna þess hóps sem hv. þingmaður er að ræða hér um. Að skoða kaupmáttaraukninguna á ráðstöfunartekjum þessa hóps (Forseti hringir.) — þetta er í raun og veru sögulegt. Það er sögulegt hversu mikið kaupmáttur hefur vaxið. (Forseti hringir.) En verkið er ekki búið. Núna setjum við 10% af öllum tekjum ríkisins í málið (Forseti hringir.) og við höfum þörf fyrir stærri köku til að gera betur.