151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

endurgreiðslur ferðakostnaðar vegna krabbameins.

[13:42]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þekking á starfsemi mannslíkamans, á orsökum sjúkdóma og leiðum til að fyrirbyggja þá, fer stöðugt vaxandi. Samhliða breytist fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu þar sem skimanir, eftirlit og fyrirbyggjandi aðgerðir fá aukið vægi. Það er mikilvægt að almenn viðmið og reglur um aðgang að heilbrigðisþjónustu taki mið af þessum breytingum og að þar sitji allir landsmenn við sama borð þannig að Sjúkratryggingar Íslands taki þátt í ferðakostnaði vegna slíkrar heilbrigðisþjónustu eins og annarra. Fyrir liggur að meinvaldandi breytingar í BRCA-genum auka áhættu á nokkrum tegundum krabbameina. Með markvissu eftirliti og/eða fyrirbyggjandi aðgerðum er hægt að fækka alvarlegum tilfellum krabbameina hjá arfberum eða jafnvel koma alveg í veg fyrir þau. Konur sem eru arfberar fyrir stökkbreytingar eru líklegri til að greinast með brjóstakrabbamein fyrir fertugt. Karlar geta einnig fengið brjóstakrabbamein af þessum völdum. Konur og karlar sem lifa með áhættu á arfgengum krabbameinum treysta mjög á skimun og eftirlit, bæði fyrir sína líkamlegu og andlegu heilsu. Mikilvægi eftirlits og fyrirbyggjandi aðgerða er þess vegna ótvírætt. Á síðastliðnum árum hefur orðið mikil vitundarvakning varðandi arfgenga áhættuþætti og búið að finna og greina stóran hluta af þeim sem bera t.d. BRCA-stökkbreytinguna á Íslandi.

Í minni heimabyggð eru þessar stökkbreytingar nokkuð algengar og einstaklingar þaðan hafa farið í fyrirbyggjandi aðgerðir á síðustu árum sem kalla á allt að 8–20 ferðir til höfuðborgarinnar. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvaða reglur gilda almennt um endurgreiðslu ferðakostnaðar vegna aukins eftirlits, skimana eða fyrirbyggjandi aðgerða? Hvernig er staðið að uppfærslu og endurskoðun reglna um endurgreiðslu ferðakostnaðar hjá Sjúkratryggingum Íslands samhliða þróun heilbrigðisþjónustu?