151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

skýrsla um leghálsskimanir o.fl.

[14:03]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Hæstv. forseti hélt hér í gærkvöldi innblásna ræðu um hvað hann hefði verið duglegur við að efla þingið. Ég velti því fyrir mér hvað hafi legið þar að baki. Mig langar að spyrja hæstv. forseta: Hefur hann átt þetta samtal við ráðherrana um að virða hér vilja þingsins þegar kemur að samþykktum þingsályktunum? Þingsályktun er viljayfirlýsing þingsins, það stendur í öllum kennslubókum stjórnskipunarréttar. Forsetinn vísar í að hann hafi hugsanlega ekki völd hvað þetta varðar, en hann er engu að síður málsvari okkar allra hér, minni hluta og meiri hluta, og ég velti því fyrir mér og spyr hæstv. forseta: Hefur hann átt eitthvert samtal við hæstv. forsætisráðherra hvað þetta varðar þegar þingið ákvað, þegar við ákváðum að ráðherrunum, framkvæmdarvaldinu okkar, bæri að leggja fram frumvarp sem lyti að lögfestingu samnings um réttindi fatlaðs fólks? Eða er þetta bara einhver sýndarmennska þegar kemur að þingsályktunum? Hæstv. forseti er mjög reynslumikill maður, hann er búinn að vera hér síðan ég var sex ára gamall. Ég velti fyrir mér hvort hann sé ekki til í að gera það að sínum svanasöng að þessi vilji þingsins sé virtur.