151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

skýrsla um leghálsskimanir o.fl.

[14:04]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti hefur áður rætt þetta mál og þá benti forseti m.a. á að eftir að út kom skýrsla sérstakrar nefndar í kjölfar stóru rannsóknarskýrslu Alþingis, var ein af tillögum þeirrar þingnefndar til úrbóta sú að auka skyldi aðhald Alþingis með framkvæmdarvaldinu að þessu leyti með því að hæstv. forsætisráðherra væri skyldugur til að leggja fram árlega skýrslu um framgang þingsályktana. Þetta hefur verið gert síðan og með þeim hætti hefur þingið aukið aðhald sitt með framkvæmdarvaldinu.

En forseti verður að segja það, og vonar að það hleypi ekki öllu í bál og brand, að forseti Alþingis hefur auðvitað ekki boðvald yfir ráðherrum. Alþingi sjálft hefur eftirlit með framkvæmdarvaldinu og hefur til þess sterk tæki. Þau hafa verið styrkt á undanförnum árum þannig að í reynd er það svo að þingið sjálft og þingnefndir, og ekki síst stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hafa í raun og veru hin beinu lögbundnu tæki fremur en forseti Alþingis sjálfur. Forseti getur að sjálfsögðu reynt að beita áhrifavaldi sínu og það hefur hann gert. Ég hef átt samtöl við ráðherra um ýmislegt af þessu tagi sem betur má fara að mínu mati í samskiptum löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Það hefur verið lögð í það vinna á þessu kjörtímabili að bæta þau samskipti. Þar má nefna t.d. að hæstv. forsætisráðherra kemur núna reglulega til fundar við formenn þingflokka og forsætisnefnd og gerir grein fyrir stöðu mála, með þingmálaskrá og öðru slíku, þannig að ýmislegt hefur verið reynt í þessum efnum. En heimurinn er samt sem áður ekki enn orðinn fullkominn.

Að sjálfsögðu er mikilvægt að vilji Alþingis að þessu leyti sem og öllu öðru sé virtur. Þá er auðvitað endi þessarar ræðu sá að ráðherrar bera ábyrgð á sinni stjórnsýslu að lögum. Þannig er það. Þar endar hún, en ekki á borði forseta Alþingis.