151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[16:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég skil það er þetta tillaga sem er ekki tímabundin, hún er varanleg inn í lögin. Ef einhver þiggur vinnu sem er kannski ekki akkúrat við hæfi getur hann vitanlega sótt síðar um starf sem losnar eða er auglýst sem er þá við hæfi samkvæmt starfsreynslu hans og menntun. Hann er ekki bundinn af því starfi sem hann fær í millitíðinni. Ég óttast einna helst að ef við förum að breyta þessu þannig að það verði möguleiki á miklum túlkunum og mörgum undanþágum þá búum við kannski til einhvers konar hvata fyrir fólk til að það leiti sér síður að vinnu, sé síður að vinna og sé frekar á bótum. Sumir geta að sjálfsögðu ekki tekið hvaða vinnu sem er. Sumir þurfa á stuðningi okkar að halda og við eigum að hjálpa þeim, að sjálfsögðu. Ég hef ákveðnar efasemdir um þetta eins og hv. þingmaður heyrir. Mér finnst ekki alveg nógu skýrt, og vera má að það sé misskilningur hjá mér, hvort þetta er tímabundið úrræði eða til frambúðar. Mér finnst það aðeins skipta máli. Það kann að vera að á meðan við komum okkur út úr þessu ástandi sé eðlilegt að það sé „rýmri réttur“ til höfnunar á störfum. En ég veit það ekki, þetta er voðalega erfitt, eins og menn segja stundum í þessum ræðustól. Maður er bara þannig gerður að maður vill hafa vinnu, það er bara svoleiðis. Það er kannski erfitt að setja sig þá í önnur spor, því miður. En við reynum það og ég veit að þessi tillaga er sett fram af góðum hug, engu öðru.