151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[19:56]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Virðulegi forseti. Við ræðum breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar og á lögum um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna. Þarna er verið að breyta lögunum í þá átt að lengja viðmiðunartímabilið vegna þess að enginn veit í raun og veru hvenær við verðum komin algjörlega út úr þessum kórónuveirufaraldri. Það þykir öruggara að framlengja þetta úrræði sem hefur reynst íþróttafélögunum afskaplega vel, að geta sótt styrki eða hluta af greiðslum vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna í starfi sínu á meðan á þessu ástandi stendur, þó að það hafi reyndar stórlagast á síðustu örfáum vikum, og vonandi verður það bara áfram og þetta úrræði sem minnst notað.

En þegar frumvarpið um greiðslur til íþróttafélaga kom fyrst hérna inn og varð síðan að lögum nr. 155/2020, var auðvitað strax bent á þetta misræmi í þeim, að ekki væri tekin með öll æskulýðsstarfsemi. Það ætla ég að gera að mínu umtalsefni, þann galla í lögunum sem kom strax fram, að þau ná eingöngu til íþróttafélaganna, ekki til annarrar æskulýðsstarfsemi, einungis til íþróttafélaga innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, sem eru mýmörg og fjölmargar íþróttir þar undir, og auðvitað er langstærstur hluti ungmenna sem stundar skipulagt æskulýðsstarf innan íþróttahreyfingarinnar. Það vantar þó þarna inn, eins og bent hefur verið á í umsögn frá KFUM og KFUK, æskulýðsstarfsemi þeirra er ekki þarna inni.

Þessi samtök vinna auðvitað geysimikið forvarnastarf, ekki síður en íþróttafélögin. Mér finnst að þetta eigi að vera þarna líka inni og ekki síður skátarnir, Bandalag íslenskra skáta og öll þau skátafélag sem þar eru, sem eru rétt yfir 40. Taldi ég upp í minni fyrri ræðu öll þessi skátafélög sem eru mýmörg og miklu fleiri en ég gat ímyndað mér, af því að ég hef nú aldrei verið í skátunum, því miður. En þau voru alla vega 40 og jafnvel yfir 40. Ég fékk ábendingu eftir mína fyrri ræðu að mér hefði sést yfir einhver af þessum félögum, t.d. Vogabúa hérna í Reykjavík, ég gleymdi að minnast á þá í minni fyrri ræðu, og síðan félag á Þórshöfn sem heitir Goðar, sem hefur reyndar ekki verið starfandi síðustu tvö árin. En þetta eru mýmörg félög. Og í Vestmannaeyjum, þar sem ég bjó lengi, var skátafélagið Faxi með öfluga starfsemi. Maður varð mikið var við þessi ungmenni sem voru á ferð um bæinn og upp í hrauni, gerandi alls konar æfingar eða eitthvað, ég veit ekki alveg hvað þau voru að gera, ég veit það hreinlega ekki, en þau voru í útilegum og eitthvað slíkt.

Stofnandi skátahreyfingarinnar í Englandi var Baden-Powell. Hreyfingin var stofnuð í Englandi árið 1907 og má rekja upphafið til þess að Baden-Powell fór með hóp drengja út í eyju, Brownsea, og var að kenna þeim að umgangast náttúruna og vera í náttúrunni. Honum þóttu mörg börn vera óvirk og áhugalaus, og það var upphafið að þessu. Hann vildi þroska uppfinningasemi ungmenna og barna með því að fara með þau í einhvers konar útilegu til að þroska athyglisgáfu þeirra og hugmyndaflug. Þetta skiptir afskaplega miklu máli. Þó að þetta sé kannski gamaldags í dag þá á þetta enn þá við, ung börn og krakkar hafa svo gott af því að þroska sína uppfinningasemi, fá hugmyndir, gera þær að veruleika og glíma sjálf við vandamálin en ekki bara eingöngu að fá fyrirmæli.