153. löggjafarþing — 109. fundur,  16. maí 2023.

Störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í dag er sagan skrifuð hér á Íslandi þegar helstu þjóðarleiðtogar Evrópu hittast í Hörpu til viðræðna. Umstangið er verulegt og eitthvað sem við höfum svo sannarlega ekki vanist hér áður. Það er greinilegt að skipulagið er gott og þeir sem standa að baki fundinum eiga hrós skilið. Á fundi sem þessum leggja leiðtogar pólitískan ágreining til hliðar, byggja upp persónuleg tengsl og móta sameiginlega sýn fyrir frið í Evrópu. Evrópuráðið hefur því mikilvæga hlutverki að gegna að gæta að mannréttindum, lýðræði og að alþjóðlegar reglur séu virtar. Það er ekki hægt að ofmeta mikilvægi fundi sem þessa. Þegar leiðtogar þjóða safnast saman á einum stað fá þeir einstakt tækifæri til þess að efla skilning, tengjast og byggja upp traust. Á sama tíma senda þeir öflug skilaboð til borgaranna og alþjóðasamfélagsins um mikilvægi þess að standa saman um grundvallarmannréttindi. Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum að helsta málefni fundarins er að ræða innrás Rússa í Úkraínu, hvernig bæta megi það tjón sem Rússar hafa valdið og hvernig draga megi þá til ábyrgðar fyrir þessi voðaverk. Ef viðræður ganga vel er gert ráð fyrir að undirrituð verði sameiginleg yfirlýsing sem líklega fær nafnið Reykjavíkuryfirlýsingin. Við eigum að vera stolt yfir því á Íslandi að hafa vera valin til að hýsa þennan merka viðburð, alveg eins og Ísland var valið á sínum tíma til að hýsa fund Ronalds Reagans og Mikhaíls Gorbatsjovs. Enn á ný er Ísland og Reykjavík sameiningartákn friðar. Það er ekki að ástæðulausu sem friðarsúlan var reist í Viðey. Ísland á að vera og er sá staður í heiminum þar sem helstu leiðtogar geta komið saman og lagt áhyggjur sínar á borð og leitað lausna. Yfir því getum við verið stolt.