Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 109. fundur,  16. maí 2023.

Störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Friðjón R. Friðjónsson (S):

Virðulegi forseti. Í gær gaf Hagstofan út tölur um kosningaþátttöku í sveitarstjórnarkosningunum sem haldnar voru á síðasta ári. Eins og vænta má eru tölur Hagstofunnar áhugaverðar. Við sveitarstjórnarkosningarnar 2022 voru á kjörskrá 276.593 einstaklingar og greiddu 173.733 þeirra atkvæði. Fjölgun á kjörskrá milli kosninganna 2018 og 2022 var 28.650, sem er umtalsverð fjölgun. Kosningaþátttakan var nokkuð lægri í sveitarstjórnarkosningunum 2018 eða 62,8% samanborið við 67,6%. Sveitarstjórnarkosningar eru ólíkar þingkosningum að því leyti að erlendir ríkisborgarar hafa kosningarétt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Fyrir kosningar 2022 voru réttindi erlendra ríkisborgara aukin mjög og milli kosninganna 2018 og 2022 fjölgaði erlendum ríkisborgurum á kjörskrá um 18.582. Þegar þátttaka þeirra er skoðuð sjáum við að erlendir ríkisborgarar greiddu tvöfalt fleiri atkvæði 2022 en 2018 en vegna þess að þeim fjölgaði þrefalt hrundi kosningaþátttakan í þessum hópi, fór úr 18,4% í 13,6% sem er minnkun um rúmlega fjórðung. Næstum allt fall í kosningaþátttöku í sveitarstjórnarkosningunum 2022 má skýra með minni þátttöku erlendra ríkisborgara. Okkur, sem göngum að þessum réttindum vísum, mistókst augljóslega að upplýsa nýja kjósendur um ný réttindi. Við verðum að gera betur næst. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)