Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 109. fundur,  16. maí 2023.

virðisaukaskattur.

114. mál
[15:19]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Frú forseti. Hér erum við að ræða mál sem snýr að því að samfélagið sé ekki að skattleggja hjálpartæki sem eru grunnþarfir fatlaðs fólks þannig að þau geti lifað sambærilegu lífi og þeir sem búa ekki við fötlun. Í sjálfu sér er hér um stórt mál að ræða fyrir þá sem þurfa að fá umrædd hjálpartæki en í stóra samhenginu, eins og flutningsmenn frumvarpsins hafa sagt frá skilmerkilega, þá er þetta ekki stórt mál í ríkisfjármálunum. Þetta er enn fremur örlítið mál ef maður ber saman allar aðrar undanþágur sem er að finna í virðisaukaskattskerfinu. Því sætir ákveðinni furðu að það sé verið að leggja þetta frumvarp fram í fjórða skipti og að það sé ekki búið að ná fram að ganga í þinginu og sé bara orðið að lögum, enda tel ég að ef menn horfa á málið þá sé alveg ljóst að mikill meiri hluti landsmanna myndi vilja haga skattlagningu með öðrum hætti. Það er af nógu að taka.

Hér hefur verið fjallað um bankaskattinn, að það hafi verið felldir 9 milljarðar niður. Ég held að það verði að skoða þetta mál í því samhengi. Einnig þarf auðvitað að horfa til annarra liða sem eru undanþegnir virðisaukaskatti og þá falla þessir þættir algerlega þar undir, þ.e. að vera þá ekki að innheimta virðisaukaskatt af hjálpartækjum.

Það sætir ákveðinni furðu að þingmenn Vinstri grænna skuli ekki taka þátt í þessari umræðu vegna þess að þeir hafa haft það á stefnuskrá sinni að sjá til þess að þeir sem þurfa á hjálpartækjum að halda eigi greiðan aðgang að þeim. Alla vega hafa þeir skreytt sig hvað stefnumálin varðar en þegar komið er að því að hleypa svona litlu máli í stóra samhenginu, en stóru máli engu að síður fyrir þá sem það greiðir götu þess að geta verið fullir þátttakendur í íslensku samfélagi, er þá bara hvergi að finna í þingsalnum. Eða setja fyrirmenn flokksins, þessir fínu fyrirmenn í flokknum, þetta á oddinn? Nei, það eru önnur mál á oddinum. Það eru auðvitað mál sem snúa að NATO og vopnakaupum og því öllu, fínum veislum þannig að forystumennirnir eða fyrirmennirnir í Vinstri grænum geti baðað sig í alþjóðlegu sviðsljósi. Þar eru þeirra áherslur og það er bara gott og vonandi átta fleiri og fleiri kjósendur Vinstri grænna sig á því að flokkurinn snýst ekki um þessi stefnumál, sem eru falleg og ágæt, heldur um allt aðra hluti.

Það hefur verið talað hér um bankaskattinn og hann er 9 milljarðar þannig að þetta eru bara smáaurar í því samhengi. Þetta eru líka smáaurar í samhengi við það sem bankarnir skiluðu í hagnað bara á fyrsta ársfjórðungi. Hvað voru það? 20 milljarðar. Í fyrra voru það, ef ég man rétt, í kringum 70 milljarðar sem var hreinn hagnaður bankanna. Ekki er þetta heldur há upphæð sem stendur hér í ráðamönnum þjóðarinnar, fyrirmönnum þjóðarinnar er réttara að kalla þá, sem eru að byggja hér mammonshöll. Þá á ég við höfuðstöðvar hins nýja Landsbanka. Þar eru hátt í 17.000 m² sem eru ofan jarðar og síðan er eitthvað sem er neðan jarðar. Ekki veit ég nákvæmlega töluna á þeim fermetrum en ekki er ólíklegt að þeir telji jafnvel þúsundir fermetra.

Síðan er það Seðlabanki Íslands. Ekki er hann að herða sultarólina þó að hann þrengi hér að heimilunum mjög illilega. Það er verið að spandera nokkur þúsund milljónum þessa dagana í breytingar um leið og bankinn boðar það að skuldsett heimili eigi að hafa það enn þá þrengra og beinir því jafnvel síðan til bankakerfisins að það sýni þessu fólki miskunn sem bankinn sjálfur er að herða að um leið og hann er að spandera í breytingar upp á mörg þúsund milljónir.

Við verðum að skoða þessa hluti í samhengi, í samhengi við það að virðisaukaskattskerfið er einmitt sniðið að því að hafa undanþágur fyrir þessa þætti, heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu, skólaþjónustu. Og hvers vegna þá ekki hjálpartæki fyrir fatlaða? Ég held að það sé réttmæt krafa hjá Öryrkjabandalaginu að þessu frumvarpi verði bara fleytt hér í gegn eins og ýmsum öðrum sem ég tel vera breiða samstöðu um meðal þjóðarinnar.

Það er einnig að finna ýmsa þætti í þessu, svo sem að það er ekki virðisaukaskattur á útleigu íbúða, það er ekki virðisaukaskattur, ef ég man rétt, á laxveiði. Ef einhverjum dettur í hug að kaupa laxveiðileyfi er það ekki virðisaukaskattsskylt, alla vega var það ekki til skamms tíma, íþróttastarf og fleiri þættir sem eru alveg réttmætir og ég ætla ekkert að draga úr mikilvægi þess að séu undanþegnir. En þetta mál, hvers vegna stendur það svona í hv. þingmönnum Vinstri grænna og Framsóknarflokksins að fleyta þessu máli áfram? Hér kom þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem lýsti yfir stuðningi. Það er greinilegt hvar fyrirstaðan er. Hún er greinilega hjá hinum stjórnarflokkunum. Ég tel að það þurfi að fá nánari umræðu, bara einfaldlega innan þessara flokka. Fyrir hvað standa þessir flokkar ef þessi mál fá ekki framgang, að fella niður virðisaukaskatt og hætta að skattleggja fatlað fólk sérstaklega þegar önnur sambærileg þjónusta í heilbrigðiskerfinu og félagsþjónustunni er undanþegin skattlagningu?

Þetta mál ætti að vera borðleggjandi og ég er í rauninni viss um það að Ísland verði miklu betra land ef þetta mál nær fram að ganga.