131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Um fundarstjórn.

[13:25]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera að umræðuefni þau sérstæðu orð sem féllu frá hæstv. forseta þegar hann vítti ummæli mín og ef ég skildi hæstv. forseta rétt var hann að víta ummælin „ég hef orðið“.

Nú er það þannig að þingmönnum er gefið orðið á hinu háa Alþingi og þeir hafa skammtaðan tíma. Við allar eðlilegar aðstæður geta þeir nýtt sér þann tíma til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ef hæstv. forseti vill taka þátt í umræðunni skráir hann sig á mælendaskrá og tekur þátt í henni.

Ég vil mótmæla því, virðulegi forseti, að ég hafi borið þingið, ráðherra eða einhvern þingmann brigslyrðum eða nokkru sem gefur tilefni til þess að hæstv. forseti kalli fram að eitthvað tiltekið sé vítavert. Ég mótmæli því harðlega og ég vil minna hæstv. forseta á í fullri vinsemd að hæstv. forseti er forseti alls þingsins.