131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Sjúkrahússbyggingar í Fossvogi.

512. mál
[14:35]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem gefa til kynna að þær hugmyndir sem eru uppi um framtíðarnýtingu Borgarspítalans eru ekki langt komnar. Þó nefndi hæstv. ráðherra að byggingarnar gætu verið notaðar fyrir ýmsa aðra starfsemi heilbrigðisþjónustu en það segir sig náttúrlega sjálft að þá nýtist fjárfestingin afskaplega lítið. Þær gætu nýst til öldrunarþjónustu sem er í rauninni ágæt hugmynd því eins og komið hefur fram er töluverður skortur á hjúkrunarrými fyrir aldraða. Á hinn bóginn segir það sig sjálft að þetta húsnæði er ekki mjög hentugt fyrir öldrunarstofnanir með hliðsjón af þeim kröfum sem við gerum núna í dag, bæði um minni stofnanir og einnig vegna þeirrar áherslu að við viljum frekar styðja fólk til að vera heima eins lengi og hægt er.

Ég spurði hæstv. ráðherra sérstaklega hvort honum fyndist koma til greina að skoða þennan spítala sem einkaspítala. Ég vona að ég fái einhver svör frá hæstv. ráðherra í seinni ræðu hans varðandi það atriði því það er alveg ljóst að samkvæmt fyrirliggjandi áætlunum mun framkvæmd við nýjan spítala hefjast árið 2009 og þar sem verið er að tala um að færa bráðaþjónustuna fyrst, leggja áherslu á að byggja undir hana, er ljóst að það verður fljótlega af því að flytja starfsemi úr Borgarspítala inn í hinn nýja spítala. Það er ekki seinna vænna að gera áætlanir um hvað verður um þessa stóru stofnun. Þótt það fari kannski aðeins inn í aðra sálma er samt alveg ljóst að ef það kemur til greina af hálfu ráðherra að ganga til samninga við einkaaðila um rekstur þessa spítala (Forseti hringir.) vill maður vita á hvaða forsendum slíkt skyldi gert.