131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Geðheilbrigðisþjónusta í fangelsum.

561. mál
[14:47]

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég tek þá upp þráðinn. Ég þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir að hreyfa þessu máli og ég hlýt jafnframt að lýsa ánægju minni með aukinn skilning fangelsisyfirvalda á að taka á heilbrigðisvanda sem fangar standa frammi fyrir við afplánun refsingar. Það má sjá m.a. í skýrslu fangelsisyfirvaldanna um markmið Fangelsismálastofnunarinnar.

Það er einkum vandi tveggja hópa fanga sem þarf sérstaklega að huga að. Annars vegar eru þeir sem eiga við vímuefnavanda að stríða og hins vegar hinir sem eru með geðræn vandamál. Það er mikil þörf á frekari úrræðum varðandi vímuefnameðferð en hún stendur föngum einkum til boða við lok refsivistar. Í ljósi þess að fangelsi á að vera betrunarvist væri nær að bjóða föngun upp á afeitrun og meðferð vegna vímuefnavanda við upphaf meðferðar og styðja þá til þess að halda sig frá vímuefnum meðan á refsivist stendur. Á það þarf að leggja áherslu og það eitt gæti leyst ýmsan annan vanda í fangelsum.

Jafnframt er vandi — nú er minn tími búinn og þá stoppa ég.