131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Viðbrögð við faraldri.

637. mál
[15:11]

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svör hans. Það er hárrétt sem fram kom hjá honum og fleiri ágætum hv. þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu, að við megum eðli málsins samkvæmt ekki vekja óþarfa ótta meðal þjóðarinnar. En það er hins vegar deginum ljósara að huga þarf að þessu í tíma og að fara þarf fram upplýst umræða um þessi mál.

Ég get ekki greint annað af svörum hæstv. heilbrigðisráðherra en að unnið sé skipulega að því að byggja upp varnir gegn þessari miklu vá. Það kom fram í svörum hæstv. ráðherra að það hefur verið gert í heilt ár.

Hvað sem því líður þá tel ég að mikið sé til í því sem kom fram hjá hv. þm. Kjartani Ólafssyni, að þetta mál vekur upp margar spurningar. Það er gott mál í sjálfu sér, að við tökum umræðu um það. Umræðan þyrfti kannski að fara fram víðar þannig að allir þeir aðilar sem koma beint að málinu og þjóðin sé vel upplýst um hvað er hér á ferðinni, vel upplýst um hvað verði gert ef þessi vágestur kæmi, sem við vonum sannarlega að verði ekki. Vonandi verður þessi stökkbreyting ekki sem menn hafa áhyggjur af. Það er nógu slæmt að þetta smitist frá dýrum.

Ég held að það sé lykilatriði í þessu að vona hið besta en búa sig undir það versta. Ég held að það sé markmið í sjálfu sér að upplýsa almenning, heilbrigðisstéttir og aðra aðila sem að þessum málum koma. Ég vil nota tækifærið og þakka hæstv. ráðherra aftur fyrir greinargóð svör.