131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Viðbrögð við faraldri.

637. mál
[15:14]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Herra forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram um þetta alvarlega mál. Ég endurtek að við verðum að halda vöku okkar í þessum efnum án þess að mála það svo dökkum litum að það veki óþarfa ótta hjá þjóðinni. En það er best að hafa varann á. Ég vil undirstrika að þeim sem ferðast til fjarlægra landa, þar sem samneyti manna og dýra, manna og fiðurfjár, er mikið og þar sem fiðurfé er jafnvel í híbýlum manna, er eins gott að fara varlega.

Menn spyrja um hvaða afleiðingar þessi faraldur gæti hugsanlega haft og hafa nefnt spænsku veikina til samanburðar. Þetta væri hliðstæður faraldur og þá var en hins vegar ber að geta þess að aðstæður eru allt aðrar núna en þá var. Eigi að síður má búast við því að þeim sem eru veikastir fyrir, eins og í öðrum faröldrum, sé mest hætta búin. Ég vil ekki fara með tölur í þessu efni en ég tel að dánartíðni, ef allt færi á versta veg, yrði hærri en við höfum þekkt hingað til í venjulegum faröldrum sem hér geisa.

Ég endurtek að við þurfum að halda vöku okkar. Við höfum verið með þessa samstarfsnefnd í fullum gangi. Ég veit ekki betur en að hún sé einmitt á fundi núna, meðan þessi umræða fer fram. Yfirdýralæknir hefur verið í ráðum í þessu sambandi og samband sóttvarnalæknis og hans hefur verið náið í þessum efnum.