132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Meðferð mála hjá Samkeppniseftirlitinu.

627. mál
[12:50]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þingmanni að það skiptir miklu máli að niðurstöður fáist í mál. En þegar ný samkeppnislög tóku gildi og Samkeppnisstofnun var lögð niður tók Samkeppniseftirlitið við tæplega 80 óafgreiddum málum. Að meðaltali höfðu þau beðið afgreiðslu í 13 mánuði. Um miðjan mars á þessu ári var um þriðjungi framangreindra mála lokið af hálfu Samkeppniseftirlitsins.

Allt fram í febrúar á þessu ári hélt Samkeppniseftirlitið málafjölda í horfinu, þ.e. fjöldi mála í meðferð var á bilinu 70–80 mál. Lögð hefur verið áhersla á að meðferð nýrra mála sé í viðunandi horfi og hefur það tekist í flestum tilvikum. Í byrjun apríl hafði málum í meðferð hins vegar fjölgað allmikið og voru þau þá tæplega 100. Skipti þar mestu að Samkeppniseftirlitinu hafði á sl. vikum borist um 15 tilkynningar um samruna fyrirtækja. Svo mörg samrunamál sem afgreiða verður samkvæmt lögbundnum lágmarksfrestum tefja meðferð almennra mála sem ekki lúta sambærilegum frestum.

Elsta mál sem ekki hefur verið lokið formlega hófst í lok ársins 2001. Rétt er að taka fram að það mál var um alllangan tíma sett í bið af hálfu Samkeppnisstofnunar vegna forgangsröðunar verkefna, auk þess sem brýnir hagsmunir af lokum málsins eru ekki lengur til staðar.

Sjö þeirra mála sem nú eru til meðferðar eru frá árinu 2002. Ekki er hægt að greina frá meðalafgreiðslutíma mála sem nú eru til meðferðar fyrr en þeim er lokið. Marktækar reynslutölur um málshraða Samkeppniseftirlitsins munu ekki liggja fyrir fyrr en lengri tími hefur liðið frá stofnun þess. Taka ber fram að Samkeppniseftirlitið hefur gripið til ýmissa aðgerða til að liðka til fyrir meðferð mála. Má þar m.a. nefna að eftirlitið hefur sett sér nýjar málsmeðferðarreglur þar sem kveðið er á um lágmarkskröfur til aðsendra erinda, auk þess sem kveðið er á um mat Samkeppniseftirlitsins á því hvort aðsend erindi gefi tilefni til rannsóknar. Á grundvelli framangreindra ákvæða getur Samkeppniseftirlitið ákveðið að taka mál ekki til rannsóknar á grundvelli innkomins erindis. Á hinn bóginn hvetur Samkeppniseftirlitið til þess að óformlegum ábendingum um samkeppnislagabrot sé beint til þess.

Á nýrri heimasíðu gefst almenningi og fyrirtækjum kostur á að senda inn slíkar ábendingar. Með þessu hyggst Samkeppniseftirlitið stuðla að betri nýtingu á ráðstöfunartíma þess. Ítarlegar leiðbeiningar er að finna um þetta á nýrri heimasíðu Samkeppniseftirlitsins, samkeppni.is.

Rétt er að minna á að ýmis atriði hafa áhrif á það hversu langan tíma mál eru í meðferð hjá Samkeppniseftirlitinu. Má í því sambandi nefna eftirfarandi: Mál hjá Samkeppniseftirlitinu eru misjafnlega umfangsmikil og flókin. Ákvarðanir samkeppnisyfirvalda sem birtar eru á heimasíðunni spanna allt frá tveimur blaðsíðum til tæplega eitt þúsund blaðsíðna. Því fleiri málsaðilar og aðrir sem afla þarf gagna eða sjónarmiða hjá þeim mun lengri tíma getur málið tekið. Oft gleymist að bið eftir gögnum og sjónarmiðum aðila er verulegur hluti þess tíma sem mál tekur.

Stjórnsýslulög setja Samkeppniseftirlitinu og öðrum stjórnsýslustofnunum kröfur um meðferð mála sem augljóslega hafa áhrif á málshraða. Brýn mál sem til meðferðar eru tefja oft meðferð annarra mála. Sem dæmi má nefna að ákvörðun um íhlutun eða ógildingu samruna þarf samkvæmt lögum að taka innan fjögurra mánaða frá því að fullbúin gögn berast eftirlitinu. Samrunamál eru því tekin fram fyrir mál sem ekki lúta lögbundnum tímafrestum. Mannafli og rekstrarsvigrúm stofnunarinnar hefur að sjálfsögðu áhrif á málshraða. Samkeppniseftirlitið hefur á liðnum mánuðum ráðið til sín fleira starfsfólk. Þeirri vinnu er ekki lokið. Jafnframt hefur Samkeppniseftirlitið leitast við að útvista verkefnum eftir því sem tök hafa verið á. Stefna Samkeppniseftirlitsins og markmið um árangursstjórnun miða m.a. að því að flýta afgreiðslu mála. Upplýsingar um þetta má finna á heimasíðu eftirlitsins.