132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Meðferð mála hjá Samkeppniseftirlitinu.

627. mál
[12:55]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskiptaráðherra kærlega fyrir svörin en þau gefa skýrt til kynna að fleiri óafgreidd mál séu nú en þau voru áður en Samkeppniseftirlitið var stofnað. Það má vera að þau hefðu ef til vill orðið enn þá fleiri ef það hefði ekki verið stofnað. Það mátti jafnvel ráða svo í orð hæstv. viðskiptaráðherra.

En nú er ástandið allt annað en lagt var upp með. Það eru fleiri óafgreidd mál nú en voru hjá Samkeppnisstofnun. Þess vegna finnst mér vera réttmætt að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún ætli að bregðast við þannig að hægt sé að ráðast á þennan stafla og minnka í honum. Það eru mál þarna, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, frá 2001 og eru því orðin fimm ára gömul. Þetta er náttúrlega algjörlega óviðunandi og ég heyrði á orðum hæstv. viðskiptaráðherra að hún var sammála mér hvað það varðar.

Síðan kom fram að hæstv. ráðherra taldi að ekki væri hægt að bera saman hvort málshraði hafi aukist eða ekki, vegna þess að of skammur tími væri liðinn, þetta væri ekki marktækur tími. Það má vera og þess vegna væri mjög fróðlegt ef hæstv. ráðherra gæti gefið upp og upplýst hvenær reynslan er orðin nægjanlega löng á þessa mikilvægu stofnun, Samkeppniseftirlitið, til að hægt sé að bera saman svo marktækt sé vinnubrögð annars vegar í þeirri gömlu stofnun sem var lögð niður og nú í Samkeppniseftirlitinu.