135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

fiskeldi.

530. mál
[11:33]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég gerði fyrirvara við þetta álit nefndarinnar og sá fyrirvari lýtur fyrst og fremst að formi málsins og afgreiðslu þess fremur en efni og ég vil taka það fram að það hafa verið gerðar gagnlegar breytingar á frumvarpinu, býsna margar.

En það sem veldur fyrst og síðast fyrirvara mínum er það að frumvarpið bar brátt að. Ég tel að það hafi mátt gaumgæfa það betur en gert var í nefndinni og það kemur til af því að nefndin hefur haft afar erfitt mál til meðhöndlunar sem er matvælafrumvarpið sem fór mikill tími í, auk annarra mála og því gafst hreinlega ekki tóm til að gaumgæfa það nógu vel.

Það leiðir mig síðan að öðrum þætti sem ég hef gert að umtalsefni hér í ræðustól Alþingis. Það er hversu brýnt er að efla starf nefndanna. Það er afar brýnt. Við sjáum nú hér frumvarp eftir frumvarp þar sem kemur fram fjöldi breytingartillagna sem vísa til þess að undirbúningi hafi verið áfátt. Það vantar sárlega stuðning við stjórnarandstöðuna í nefndum. Það er fjöldi mála í allsherjarnefnd, þar sem ég sit líka, og það er hreinlega ekki tóm án stuðnings nefndasviðsins sem ég fæ að nokkru leyti en sem fer ævinlega minnkandi þegar líður að þinglokum.

Ég segi bara að ritarar nefndanna eiga fullt í fangi með að anna verkefnum fyrir meiri hluta nefndanna, þeir vinna þessa dagana frá morgni og langt fram á kvöld. Þetta hef ég sem sagt margnefnt og það má alls ekki skilja orð mín þannig að ég sé að gagnrýna ritara nefnda því þeir vinna afar vel við erfiðar aðstæður. Á síðustu dögum þingsins, síðustu vikuna hefur ekki gefist tóm til að sinna stjórnarandstöðunni sem skyldi. Það veit ég vel vegna þess að ég hef skilað inn á þingið fjölmörgum nefndarálitum sem hafa beðið, vinnsla þeirra hefur fengið að bíða.

Hitt vil ég nefna í þessu sambandi og það er að í frumvarpinu er lagt til að eftirlit og stjórnsýsla fiskeldismála verði að mestu leyti flutt til Fiskistofu frá Matvælastofu og síðan verði eftirliti skipt milli þessara stofnana. Ég ætla bara að rifja það upp að við breyttum lögum um Stjórnarráðið og starfsskiptingu í desember. Hér er verið að bæta úr því sem við kölluðum flaustur og flumbrugang á þeim tíma. Hér er verið að bæta úr því að nokkru leyti fyrir utan það að setja þessi heildarlög sem eru býsna gagnleg.

Það sem gerðist þegar lögum um Stjórnarráðið var breytt var að þá var ekki farið eftir Handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa. Og af því að það var ekki farið eftir þessari handbók þá stöndum við uppi með að gera breytingar, að flytja verkefni frá Matvælastofnun fjórum, fimm mánuðum eftir að við ákváðum að flytja það þangað eða hvernig sem það var nú. Þannig að við þá lagasmíð, varðandi Stjórnarráðið, var ekki haft neitt samráð. Áhrifin voru ekki metin. Það var ekki talað við hagsmunaaðila og þar fram eftir götunum. Og ég spái því, herra forseti, að við eigum eftir að fá fleiri slík frumvörp á haustþingi og næstu þingum til að lagfæra þetta.

Ég vil gera það að lokaorðum mínum, herra forseti, að forseti Alþingis beini þeim tilmælum til framkvæmdarvaldsins að fara eftir handbókinni framvegis. Að leita samráðs og vanda til frumvarpssmíðinnar til að auðvelda okkur vinnu í nefndum, svo að við þurfum ekki að horfa fram á það að leggja fram 20–30 breytingartillögur við þau frumvörp sem fram koma vegna þess að slælega hafi verið staðið að undirbúningi.