138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila.

570. mál
[22:45]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að fara að þreyta þingheim með einhverri fræðilegri umfjöllun um aðferðafræði félagsvísindanna (Gripið fram í.) en vil þó fullvissa hv. þingmann um að þau vandamál sem hún leysti eru að mestu leysanleg einfaldlega með því að notfæra sér þá staðreynd að í rannsókn Seðlabankans var öll þjóðin undir. Ef við tökum úrtak af þjóðinni núna sem er sæmilega stórt er mjög líklegt að það verði samanburðarhæft við tölurnar um alla þjóðina í fyrra þó að við rekjum ekki viðskiptasögu og skuldasögu einstaklinga aftur fyrir febrúar 2010.

Varðandi fjármunina er það alveg rétt að það var ekki gert ráð fyrir þessari rannsókn í útgjaldaramma ráðuneytisins. Það er eitthvert svigrúm til að taka hluta þessa kostnaðar á ráðuneytið en það er alveg augljóst að leita verður annarra leiða til að brúa megnið af þessu en að vísu fellur ekki nema hluti af kostnaðinum á árið í ár.