139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

Framleiðnisjóður landbúnaðarins.

445. mál
[16:30]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir að koma með málefni Framleiðnisjóðs landbúnaðarins inn til þingsins. Eins og hv. þingmanni er kunnugt þurfti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið eins og önnur ráðuneyti að skera niður fjárframlög til ýmissa verkefna við afgreiðslu fjárlaga fyrir yfirstandandi ár, þar á meðal framlög sem tengjast landbúnaðarmálum. Við undirbúning fjárlaga fyrir árið 2011 þurfti að taka erfiðar ákvarðanir um hvar helst ætti að bera niður við það verkefni. Ég hafði ásamt fjármálaráðherra samráð við Bændasamtök Íslands og varð niðurstaðan sú að illskásti kosturinn væri að skera niður fjárframlög sem kæmu óbeint niður á framlögum til bænda, þ.e. greiðslur til Bændasamtaka Íslands vegna leiðbeiningarstarfsemi og fjármuni til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Hins vegar var því algjörlega svarað á móti að staðið yrði við búvörusamningana í fjárlögum.

Framleiðnisjóður landbúnaðarins var stofnaður með lögum nr. 89/1966. Samkvæmt þeim var hlutverk sjóðsins að veita styrki og lán til framleiðsluaukningar og hagræðingar í landbúnaði. Við þá miklu breytingu sem varð í íslenskum landbúnaði með setningu búvörulaganna 1985 fékk sjóðurinn einnig það hlutverk að veita fé til atvinnuuppbyggingar og framleiðniaukningar í landbúnaði. Jókst þá vægi rannsókna- og þróunarverkefna í úthlutunum sjóðsins.

Við setningu búnaðarlaganna 1998 var gert ráð fyrir fjármögnun Framleiðnisjóðs sem hluta af samningum ríkisins og Bændasamtaka Íslands um fjárframlög til landbúnaðarins, en einnig hafði Framleiðnisjóður tekjur af kjarnfóðurgjaldi.

Ákvörðun um niðurskurð til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins var m.a. tekin með hliðsjón af því að sjóðurinn gæti haldið úti nokkurri starfsemi í tvö ár með því að ganga á eigið fé eins og kemur fram í bókun við búnaðarlagasamninginn. Þar er einnig bókað að samningsaðilar séu sammála um mikilvægi þess að landbúnaðurinn hafi þróunarsjóð líkt og aðrar atvinnugreinar og að leitað verði leiða til þess að treysta fjárhag sjóðsins og hvort hægt verði að tryggja honum fasta tekjustofna.

Það er mat ráðherra að sjóðurinn hafi sannað gildi sitt og gegnt veigamiklu hlutverki fyrir atvinnuveginn í að efla nýsköpun í sveitum landsins jafnframt því að stuðla að virkri byggðastefnu og einnig til að styrkja og standa á bak við rannsóknar- og þróunarverkefni í landbúnaði. Ég mun þess vegna beita mér fyrir því að fjárframlög til þessara verkefna hækki á ný um leið og tækifæri gefst þegar fjárhagur ríkisins verður með betri hætti eins og við stefnum að sjálfsögðu að. Ég tel að þessi sjóður sé gríðarlega mikilvægur fyrir íslenskan landbúnað og þar með líka íslenska þjóð til þróunarstarfs þar.

Í ljósi þessa og í samræmi við áðurnefnda bókun við búnaðarlagasamninginn hef ég ákveðið að setja á fót vinnuhóp sem hefur það verkefni að skoða stöðu Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og möguleika á eflingu sjóðsins sem þróunarsjóðs landbúnaðarins. Ég mun gefa þessum hóp frekar skamman tíma til að koma með tillögur sínar en tek hér og afdráttarlaust og eindregið undir þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. þingmanni og fyrirspyrjanda að Framleiðnisjóður landbúnaðarins er einn þeirra sjóða og eitt þeirra tækja sem hefur kannski skilað hvað mestum árangri einmitt fyrir atvinnugreinina og komið þar að margháttaðri nýsköpun um allt land. Þessi ársskýrsla Framleiðnisjóðs landbúnaðarins fyrir árið 2010 rekur hvert einasta verkefni sem sett er hér mjög ítarlega og er í sjálfu sér mjög athyglisverð og góð lesning.

Ég ítreka, frú forseti, að ég legg áherslu á að Framleiðnisjóður landbúnaðarins fái áfram öflugt og gott hlutverk og á ferðum mínum um landið, hvort sem er í landbúnaði eða sjávarútvegi, sé ég hversu miklu máli skiptir að þessar atvinnugreinar eigi sér sína eigin þróunar- og rannsóknarsjóði til að geta starfað beint með greinunum í samfélögum þeirra. Það er mín ætlan að þessi starfsemi og styrkur sjóðsins verði aukinn.