140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:40]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ætli það sé ekki frekar athafnasemi mín sem ráðherra sem gerði að verkum að forustumenn ríkisstjórnarinnar ákváðu og kröfðust þess að ég viki úr ríkisstjórn. Það varð ljóst og birtist í ályktun Evrópuþingsins þegar ráðherraskiptum um áramótin var fagnað eftir að sá sem hér stendur var látinn fara enda talið að hin nýja ríkisstjórn mundi vinna miklu einbeittar að umsóknarferlinu en áður.

Ég lagði mikla áherslu á að fylgja samþykktum Alþingis. Þó að ég væri ekki samþykkur þessari umsókn var lögð rík áhersla á það af hálfu ráðuneytis míns og allra sem þar störfuðu og eins af mér sem ráðherra að fylgja eftir stefnu og ákvörðun Alþingis en ef vafi lék á hvort það væri í samræmi við lög og reglur Alþingis skyldi Alþingi njóta vafans. Þar á meðal voru þessir (Forseti hringir.) umsóknarstyrkir, sem ég kalla mútufé Evrópusambandsins (VigH: Já.) en þeir sem eru (Forseti hringir.) ESB-sinnar kalla þróunarstyrki eða aðstoðarstyrki. (Forseti hringir.) Ég er á móti því að taka á móti fjármagni til að leiða okkur inn í Evrópusambandið.