140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sit ekki í hv. utanríkismálanefnd en raunverulega á vinnan að fara fram þar vilji þingmenn kanna undirgögn þeirra mála sem eru lögð fram hér á landi. En það er klárt að hæstv. utanríkisráðherra á að vera með þessa reglugerð á hreinu — henni var breytt 2007 og þar segir, með leyfi frú forseta:

„… er gerningur þessi sá eini lagagrundvöllur sem fjárhagsaðstoð við umsóknarríki og hugsanleg umsóknarríki hvílir á, þ.e. fjárhagsaðstoð til að gera pólitískar, efnahagslegar og stjórnsýslulegar umbætur í því skyni að gerast aðilar að Evrópusambandinu.“

Ég er nú að ljúka máli mínu í þessari umferð en ég á eftir að fara inn á netið og sækja þessa reglugerð og kanna þetta til hlítar. En það er nú svo að hæstv. utanríkisráðherra virðist ekki hafa miklar áhyggjur af þessu máli því að hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir spurði hann að því hér í vetur hvað mundi gerast ef þessi þingsályktunartillaga yrði ekki samþykkt. Þá sagði hæstv. utanríkisráðherra: Þá verður íslenska ríkið að taka á sig þessa upphæð. Fimm þúsund milljónir ætti íslenska ríkið þá að reiða af hendi.

Hæstv. utanríkisráðherra virðist líta á þessa upphæð sem sokkinn kostnað fyrir íslenska ríkið því að hann veit það jafn vel og ég innst í hjarta sínu að íslenska þjóðin er ekki á leið í Evrópusambandið. En hann er eins og lítill krakki sem langar í sleikibrjóstsykur, hann heldur áfram að sleikja brjóstsykurinn þó að hár sé komið á hann. Hann er ógeðfelldur, eins og ég hef reynt að varpa ljósi á í dag, þessi hálfsannleikur hæstv. utanríkisráðherra og skelfilegur fyrir þjóðþingið.