140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:46]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þm. Birgi Ármannssyni að ég upplifi þetta líka þannig að í raun sé búið að blekkja þingheim og koma þessu máli hérna inn. Við stöndum núna frammi fyrir því að miklar væntingar hafa verið búnar til hjá þeim sem eiga að taka við styrkjunum og nú er allt í einu orðin einhver óvissa um afgreiðsluna, sem ég tel reyndar ekki vera ef marka má orð hæstv. utanríkisráðherra.

Að öðru sem þó tengist þessu og hefur komið fram í fyrri ræðum þingmannsins, en það er siðferðið sem tengist því að taka við þessum styrkjum. Ég get tekið undir það sem kom fram hjá þingmanninum að IPA-styrkirnir eru kannski ekki í sjálfu sér það sem ætti að verða til þess að við mundum slíta viðræðunum við Evrópusambandið, það eru nægar aðrar forsendur fyrir því, en hvað um siðferðið sem fólgið er í því að taka við styrkjum á samningstímanum? Hér voru nefndar einhverjar gulrætur í máli hv. þingmanns áður, hæstv. innanríkisráðherra hefur talað um perlur og eldvatn, og ég minnist þess að í umræðunni þegar var verið að tala fyrir aðildarumsókninni að þeir sem aðhylltust aðild töldu að íslenska krónan mundi styrkjast um leið og menn sæktu um aðild. Ég minnist þess ekki að hafa séð þá þróun gerast. Samfélagið átti að styrkjast, atvinnuleysi minnka og ég veit ekki hvað ekki átti að gerast. Allt hefur þetta einhvern veginn snúist í höndunum á aðildarsinnum.

Því vil ég spyrja hv. þingmann hvað honum finnist um það siðferði sem fólgið er í því að svona risi á markaði í samningum við litla þjóð býður slíka styrki fram sem einhvers konar gulrætur, perlur eða eldvatn eða hvað við viljum kalla það, til að reyna að blíðka þá sem eiga síðan að lokum að greiða atkvæði um það hvort (Forseti hringir.) þeir muni þýðast þann stóra samningsaðila sem við eigum í viðræðum við.