141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum enn tillögu þriggja þingmanna um breytingar á stjórnarskrá, sem þeir lögðu til að yrði breyting á 79. gr. og það yrði sett í ákvæði til bráðabirgða. Þetta eru hv. þm. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, hæstv. ráðherra Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar. Þau sáu lausn á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir í dag. Við höfum rætt mikið um breytingar á stjórnarskrá en það mál hefur ekki fengist fyllilega útrætt. Það er reyndar mín skoðun, ekki er víst að það sé skoðun allra.

Ég ætla rétt aðeins að fara í gegnum það hve auðvelt er að breyta stjórnarskránni í dag.

Samkvæmt 79. gr. skal þing samþykkja breytingar á stjórnarskrá og það fer eftir venjulegum reglum á Alþingi. Það þýðir að ef 32 þingmenn eru mættir í þingsal, 31 situr hjá og einn er með getur sá eini þingmaður ákveðið nýja stjórnarskrá. Þetta er svo ótrúlega auðvelt að það er eiginlega með ólíkindum að við skulum hafa ákvæðið svona.

Síðan eru almennar kosningar, rjúfa þarf þing reyndar, þar sem menn kjósa um eitthvað allt annað en stjórnarskrá. Svo kemur nýtt þing saman og eftir sömu reglu getur meiri hlutinn í þingsal, meiri hluti hv. þingmanna, greitt atkvæði með og svo og svo margir setið hjá.

Þetta hefur ekki verið til baga. Vegna hvers, frú forseti? Vegna þess að menn hafa borið það mikla virðingu fyrir stjórnarskránni að þeir hafa ekki viljað nota sér það hversu auðvelt er að breyta henni þar til nú, eins og ég hef sagt.

Við stöndum frammi fyrir því að búið er að ræða stjórnarskrána hérna fram og til baka í nærri tvö ár frá því stjórnlagaráð skilaði tillögum sínum í júlí 2011. Og þrátt fyrir alla þá miklu umræðu hefur í reynd ekki verið rætt mikið efnislega um stjórnarskrána. Ég man til dæmis ekki eftir neinni umræðu um Lögréttu, sem er mjög áhugavert fyrirbæri og ég var með ákveðnar hugmyndir um.

Nú er spurningin, frú forseti, af því að nú líður að þingkosningum og þá þarf að rjúfa þing og svo eru páskar að koma, hvað hægt sé að gera. Hv. þm. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sá eða taldi sig sjá að ekki næðist að afgreiða stjórnarskrána nú fyrir kosningar og því skyldum við einungis breyta 79. gr. Það er reyndar hugmynd sem ég hef lagt fram í tvígang sem frumvarp til stjórnarskipunarlaga, að breyta eingöngu 79. gr. Af hverju skyldi það nú vera? Við skulum hugsa okkur að vegna ósamkomulags eða vegna ýmissa atvika fari þingið heim fljótlega og þessi tillaga sem við ræðum hér í dag verði ekki samþykkt. Þá þyrfti samkvæmt núgildandi stjórnarskrá, sem gilti þá eftir kosningar — ef maður kæmi þá með breytingar á stjórnarskránni þyrfti að rjúfa þing. Það gera menn yfirleitt aldrei nema í lok kjörtímabils. Það þýddi að allt það starf sem menn hafa unnið í sambandi við stjórnarskrána félli niður og hættan yrði sú að allar þær góðu hugmyndir sem þar eru inni féllu niður líka og einnig öll sú vinna sem hefur verið lögð í það að vara við öðrum ákvæðum. Hættan er því sú að öll sú vinna fari fyrir bí.

Þess vegna er ég dálítið upptekinn af því að þessi hugmynd hv. þingmanna Árna Páls Árnasonar, Katrínar Jakobsdóttur og Guðmundar Steingrímssonar verði samþykkt. Ég vil ekki sjá hana eins og hún var, enda er nefndin sjálf búin að breyta hugmyndinni úr því að vera ákvæði til bráðabirgða við hliðina á núgildandi ákvæði í það að það skuli vera sérákvæði til hliðar við núgildandi ákvæði. Þannig að þingmenn geti valið um hvort tillaga til stjórnarskipunarlaga falli undir það að tvö þing skuli fjalla um málið, eða þing og þjóðaratkvæðagreiðsla taki ákvörðun. Ég er mjög lítið hrifinn af slíku.

Svo setti nefndin auk þess inn í dæmið að 2/3 þingmanna þurfi að standa að tillögunni, en það er líka mjög opið, vegna þess að ef 32 þingmenn eru mættir í þingsal duga 20 eða 22 þingmenn til að ná fram 2/3. Það nægir að 22 þingmenn greiði stjórnarskránni atkvæði. Mér finnst það ekki vera nægilega mikil sátt eða trúverðugt.

Ég vil því að menn skoði þetta enn frekar. Ég hef reyndar viðrað hérna hugmynd að því hvernig hægt er að leysa þetta. Það sem menn óttast er að þjóðaratkvæðagreiðslan verði mjög fámenn og ekki verði eins mikill áhugi á stjórnarskránni og sumir vilja vera láta.

Ég hef orðið var við það af viðtölum mínum við kjósendur að það er nú bara ósköp lítill áhugi á stjórnarskránni. Ég skil það ekki af því ég hef ógurlega mikinn áhuga á henni sjálfur. En þegar ég tala við fólk er hún ekki númer eitt, tvö og þrjú. Það fólk vill sjá hvernig það ræður við útgjöldin í hverjum mánuði, hvernig það fær meiri tekjur og hvernig það kemst hjá því að borga alla þessa skatta. Ég held að stjórnarskráin sé nú ekki eins ofarlega í hugum almennings og hún er í hugum hv. þingmanna.

Ég hef lagt inn tillögu um að ef þjóðin mætir ekki nægilega vel, ef 50% þjóðarinnar samþykkir ekki tillögu til stjórnarskrárbreytingar sem Alþingi er búið að samþykkja með 40 þingmönnum, miklum meiri hluta, fari málið til næsta þings. Ef þjóðin klikkar á því að veita nýrri stjórnarskrá almennilegt brautargengi, þ.e. helmingur þjóðarinnar, ef helmingur atkvæðisbærra kjósenda greiðir ekki atkvæði með því að mæta ekki á kjörstað eða eitthvað slíkt, fari það til næsta þings eftir næstu kosningar, þá höfum við sama kerfi og núna að það eru fulltrúarnir á Alþingi sem greiða þessu atkvæði.

Ég get ekki séð að neinn ætti að vera á móti þessu vegna þess að þetta þvingar menn til sátta. 40 þingmenn þurfa að greiða tillögunni atkvæði og þjóðin fær tækifæri til að greiða atkvæði. Ef mætingin verður góð, við skulum segja að 60%, 70% mæti eins og venjan hefur verið á Íslandi og 90% eru sáttir við nýju stjórnarskrána, þá næst það markmið að meira en helmingur atkvæðisbærra manna greiði tillögunni atkvæði sitt. Þá fyndist mér, frú forseti, stjórnarskráin orðin nokkuð skotheld og mjög góð sátt um hana, bæði hjá þingi og þjóð.

Ef þetta er mál sem menn hafa ekki mikinn áhuga á og ekki næst að fá kjósendur á kjörstað eða menn eru hreinlega á móti stjórnarskránni, þannig að það næst ekki að helmingur kjósenda greiði henni atkvæði, segjum að það verði 49:51, eitthvað slíkt, sem greiði atkvæði, þá er það bara ekki nægilega mikil sátt um tillöguna hjá þjóðinni. Þá þarf það að fara til þingsins sem þarf þá að samþykkja það í mikilli sátt.

Ég hugsa nú að ef þjóðin er mjög ósátt við tillöguna mundi þingið ekki samþykkja hana í kjölfarið. Það mundi skoða hvað það væri sem þjóðin væri ósátt við.

Ef við samþykkjum ekki þessa tillögu og ef þessar miklu ræður hérna gera það að verkum að þingið fari bara heim og ekkert gerist tökum við þá áhættu að allt málið frestist um fjögur ár. Þetta ættu þeir að hafa í huga sem hafa flutt breytingartillögur við málið, sem eru merkilegt nokk þingflokksformennirnir í Vinstri grænum og Samfylkingunni. Þingflokksformennirnir flytja tillögu um auðlindaákvæði, auðvitað til að klekkja á Sjálfstæðisflokknum, til að geta sagt að hann hafi staðið gegn því því að það er víst einhver mýta eða einhver trú, þjóðsaga, að Sjálfstæðisflokkurinn sé á móti auðlindaákvæði, sem er ekki rétt, en það vilja menn geta sagt í kosningabaráttunni.

Svo þessi makalausa tillaga frá hv. þm. Margréti Tryggvadóttur um að setja heila stjórnarskrá sem breytingartillögu, ég held að hún sé bara stórvarasöm.