141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég held að það sé vegna þess að menn beri svo mikla virðingu fyrir stjórnarskránni. Ég held að það sé ekkert annað en það sem hafi stöðvað menn í því að koma með sínar hugmyndir og keyra þær í gegn eins og Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hefðu getað gert. Ég held að menn hafi borið svo mikla virðingu fyrir stjórnarskránni að þeir hafi talið að um það þyrfti að vera góð samstaða. Stjórnarskráin segir það ekki. Þess vegna er hún nokkuð hættuleg.

Núna kemur í ljós að menn eru ekki lengur að leita að samstöðu eða sátt heldur leita svona frekar að ófriði, ef það gefst, það hefur verið þannig allt þetta kjörtímabil, finnst mér. Menn eru núna að reyna að keyra í gegn ákveðna breytingu sem þeir geta náð fram, meira að segja heilli nýrri stjórnarskrá gætu menn náð fram ef stjórnarandstaðan stæði ekki hérna og reyndi að verjast með því að tala aftur og aftur. Mér finnst þetta vera mjög neikvætt af því að stjórnarskrá á að vera undirstöðuplagg fyrir alla þjóðina, ekki bara meiri hlutann. Hún á að vera stjórnarskrá sem öll þjóðin getur sætt sig við, ekki bara Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eða bara Samfylkingin og Vinstri grænir.

Þess vegna tel ég að við þurfum að finna leið sem þvingar menn til þess að vinna saman í mikilli sátt. Þær hugmyndir sem ég hef rætt gera það einmitt. Þær þvinga menn til að ná fram mikilli sátt þannig að sú stjórnarskrá sem verður til út úr því sé stjórnarskrá allra Íslendinga en ekki bara sumra.