143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

störf þingsins.

[11:38]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kom hér upp undir liðnum um störf þingsins þann 12. febrúar sl. og lýsti þar áhyggjum mínum af því hversu fá þingmál ríkisstjórnarinnar væru komin fram og áhyggjum af því að miðað við starfsáætlun mundum við enn og aftur lenda í því að vera að afgreiða hér mál of hratt undir lok þings. Og nú vil ég segja það þegar, samkvæmt starfsáætlun, ljúka á þingstörfum á föstudegi, að mér finnst bagalegt að sjá, þegar verið er að reyna að ræða saman um hvernig haga eigi þinghaldinu, að sú krafa sé uppi að afgreiða mál, og þá er ég að vitna í ýmis smærri mál sem eru kannski ekki endilega í kastljósi fjölmiðla, allt of hratt í gegnum þingið.

Það á að sjálfsögðu ekki við um allar nefndir eða öll mál, ég ítreka það, en þetta er hins vegar ekki æskilegt vinnulag þegar við horfum á mál sem þurfa greinilega meiri athygli við, þarf að skoða í miklu nánara ljósi. Mér finnst bagalegt að við séum enn og aftur lent í því að verið sé að setja pressu á að ljúka tilteknum fjölda mála í stað þess að staðnæmast við hvert og eitt og velta þá fyrir sér hvort ástæða sé til.

Þarna verð ég að segja að ég lít svo á að það sé á ábyrgð meiri hluta stjórnarflokkanna sem hér sitja hvernig þingstörfum er háttað. Nú hefur verið reynt að funda talsvert um það hvernig eigi að haga hér þingstörfunum á síðustu metrunum og því miður er þeim fundum iðulega frestað um óákveðinn tíma vegna óvæntra ástæðna og með því móti gengur ekkert í því að bæta hér vinnubrögð. Ég átta mig ekki á því hreinlega af hverju við getum ekki sammælst um það til að mynda að 1. apríl sé settur fram listinn sem stefnt er að því að klára og þá sé hægt að fara markvisst yfir það þannig að við sitjum ekki hér með einhverja lista ósamrýmanlega í að reyna að klára hér mál með allt of miklu hraði. Það er ekki á ábyrgð stjórnarandstöðunnar einnar hvernig málin fara fram í þinginu.

Það er fyrst og fremst á ábyrgð meiri hlutans og þar verður hreinlega að fara að viðhafa vandaðri vinnubrögð. Ég verð að segja að ég hef orðið fyrir vonbrigðum með þetta ferli núna og ég vona svo sannarlega að það endurtaki sig ekki.