143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

störf þingsins.

[11:52]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Mál hælisleitenda eru líklegast meðal þeirra viðkvæmustu sem stjórnsýslan glímir við. Því miður virðist harkan hafa háan sess í afgreiðslu þeirra mála. Í gær voru fréttir af því að nígerísk kona, Izekor Osazee, sem gift er íslenskum manni var handtekin þegar hún mætti á lögreglustöðina til að uppfylla tilkynningaskyldu hælisleitenda. Henni var, virðulegi forseti, rétt sisona stungið í steininn og henni sagt að það ætti að flytja hana úr landi á morgun, þ.e. í dag sem hefur sem betur fer ekki verið gert.

Innanríkisráðherra sagði hér í þinginu 28. apríl, með leyfi forseta:

„Löggjafinn felur ráðherra að móta hina almennu stefnu, halda utan um verkferlana almennt en ekki að blanda sér í einstaklingsmál …“

Í fréttum í gær kom fram að engir verkferlar eru hjá Útlendingastofnun um mál af þessu tagi. Hæstv. innanríkisráðherra hlýtur að verða að gera gangskör að því að verkferlar séu skýrir þó að hún geti ekki, eins og hún hefur margsagt, blandað sér í einstök mál. Þessi einstöku mál eru orðin of mörg til þess að hæstv. ráðherra geti vísað þeim öllum frá sér.

Enn einu sinni kalla ég eftir svari við fyrirspurn okkar Marðar Árnasonar um meintan leka, en um það sagði hæstv. ráðherra í þingsal 6. maí, með leyfi forseta:

„… full ástæða til að hraða þessu svari eins og við mögulega getum og láta það þá liggja út af sem ekki er hægt að svara vegna rannsóknarinnar sem tekur lengri tíma.“

Virðulegi forseti. Ég ætla að vona að þetta svar berist fyrir lok þingsins, þ.e. í þessari viku. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)