143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[14:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir mjög innihaldsríka og upplýsandi ræðu. Hún var mjög fræðandi, vel var farið yfir málið, enda hv. þingmaður með mikla reynslu af bæði lífeyriskerfinu og húsnæðiskerfinu. Mér fannst hann koma mjög vel inn á inntakið í því frumvarpi sem við ræðum hér, um að heimila fólki og fjölskyldum að ráðstafa séreignarsparnaði til niðurgreiðslu á höfuðstól húsnæðislána og sparnaðar til húsnæðiskaupa.

Hv. þingmaður kom inn á nýlega kynntar hugmyndir ríkisstjórnarinnar og hæstv. húsnæðismálaráðherra í húsnæðismálum. Ég vil spyrja hv. þingmann hvernig hann sjái fyrir sér slíkan sparnað og slíka heimild, hvernig hann sjái fyrir sér viðvarandi ráðstöfun í þessu kerfi og samspil við tillögur um framtíðarskipan húsnæðismála. Ég vildi gjarnan heyra vangaveltur hans um það.