143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:12]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þykist muna að Bjarni Bragi Jónsson, fyrrverandi aðstoðarseðlabankastjóri, hafði átt hið ágæta hugtak „eiginfjárdrátt“ sem hann notaði yfir það þegar verðmæti eigna hækkar og menn telja sér þar með fært að skuldsetja sig jafnvel þótt ráðstöfunartekjur hafi ekki aukist. Þetta hefur oft leitt til ófarnaðar í íslenskri sögu þegar mönnum líður betur þegar þeir sjá eign myndast á pappír en hafa ekki innleyst hann í rauninni og ráðstöfunartekjurnar standa kannski ekki undir afborgun skuldanna. Þetta er auðvitað það sem maður óttast að geti gerst í kjölfar þessarar breytingar núna.

Hv. þingmaður spyr um hvernig ég sjái fyrir mér fyrirkomulag húsnæðissparnaðar. Ég held að það þyrfti að vera þannig að það nýttist öllum óháð því hvort þeir eru á vinnumarkaði eða ekki. Það kerfi sem ríkisstjórnin ræðir núna um að nýtist í húsnæðissparnað, viðbótarlífeyrissparnaðarkerfið, virkar bara fyrir þá sem eru á vinnumarkaði. Það eru nægir hvatar nú þegar fyrir ungt fólk til að hætta námi og við þurfum ekki að auka á þá hvata og auka aðstöðumun milli þeirra sem fara í nám og þeirra sem fara út á vinnumarkað strax eftir að skyldunámi lýkur.

Ógæfa íslenskrar þjóðar er að það hefur verið allt of auðvelt fyrir ungt fólk að fara út á vinnumarkaðinn og sækja sér ekki framhaldsmenntun. Við þurfum nauðsynlega á aukinni starfsmenntun og aukinni framhaldsmenntun að halda til að standa jafnfætis öðrum þjóðum. Þess vegna er mjög mikilvægt þegar menn útfæra húsnæðissparnaðarkerfi að það styðji við sókn ungs fólks í framhaldsnám og að fólk kjósi að fara í skóla og glati ekki möguleikum á að safna sér inneign í húsnæðissparnaðarkerfi.

Hægt er að sjá fyrir sér að þetta væru iðgjöld sem ungt fólk eða foreldrar fengju sem skattafslátt og settu í einhvern sjóð, eða gæti þróast og þroskast með öðrum hætti yfir einhvern tíma. En ég held að það sé ekki skynsamlegt að tengja þetta virkri (Forseti hringir.) þátttöku á vinnumarkaði.