143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:13]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég treysti því að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason hafi hlustað með jafn mikilli athygli á þá sem hér stendur í kosningasjónvarpi þar sem kom líka fram að ég teldi að mjög margt hefði verið gert fyrir skuldsett heimili á síðasta kjörtímabili. Það kom auðvitað fram á frægum blaðamannafundi formanna stjórnarflokkanna þar sem þeir fóru yfir allar þær aðgerðir sem var farið í á síðasta kjörtímabili sem voru talsvert umfangsmeiri en þær sem um er að ræða núna á þessu kjörtímabili.

Mín skoðun á þessu var hins vegar sú að mikilvægt væri að horfa til þess hóps sem sannarlega varð líklega fyrir mestum skakkaföllum þegar kemur að verðtryggðum fasteignalánum, þ.e. þess hóps sem tók sín lán á árunum 2005–2008. Það hefur komið fram í umfjöllun nefndarinnar, raunar um það mál sem við ræðum ekki núna heldur ræðum hér á eftir, að sá hópur verður fyrir mestum skakkaföllum. Það voru áherslur okkar fyrir kosningar að sá hópur yrði skoðaður sérstaklega, til að mynda í gegnum vaxtabótakerfið, því þetta er líklega sá hópur sem hefur átt í mestum erfiðleikum, ekki síst þeir sem keyptu sína fyrstu eign á þessum tíma.