143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:31]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Nei, herra forseti. Ég teldi mun betra að við gætum innleitt almennt húsnæðissparnaðarkerfi sem væri opið öllum og ekki bara bundið við þá sem væru á vinnumarkaði og fengju launatekjur og alls ekki með þann skavanka að það væri þeim mun ríkulegra sem menn hafa hærri laun upp að mjög háum fjárhæðarmörkum eins og þetta er. Það er augljós ágalli á þessu.

Í öðru lagi er það fórnarkostnaður að veikja þessa þriðju stoð eftirlaunakerfisins í landinu, það er alveg augljóst mál, vegna þess að það hefur mikla kosti að halda áfram að þróa okkar kerfi. Og af því að einhverjir eru nú hikandi við að gerast málsvarar lífeyrissjóða og uppsöfnunarsjóða í lífeyrissparnaði hér þá er sá sem hér stendur það ekki. Ég tel það einhverja allra mestu gæfu Íslendinga að við rötuðum inn á það spor, þökk sé framsýni margra aðila á vinnumarkaði, að við hófum hér uppbyggingu söfnunarsjóða. Kerfið er í grunninn skynsamlegt með skyldutryggingu í samtryggingarsjóðum upp að vissu lágmarki og síðan viðbótarrétti manna til séreignarsparnaðar.

Þetta dregur úr álaginu á almannatryggingar og vinnur á móti breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar af því að hver kynslóð tekur sinn sparnað með sér og á hann til eigin nota og álagið á ríki og sveitarfélög verður þar af leiðandi ekki eins mikið þegar aldurssamsetning þjóðarinnar fer að breytast. Það er hún að gera og langlífi vex og við erum að sjá að í staðinn fyrir 10 til 12 eða 15% hluta landsmanna á eftirlaunaaldri stefnir í að það verði 25% plús innan ekkert óskaplega margra áratuga. Þá hefur þetta kerfi mjög mikla kosti í för með sér.

Mér liði miklu betur ef við gætum fundið leiðir til þess að hafa stuðlað að skynsamlegu húsnæðissparnaðarkerfi og ég er aftur og enn með í huga yngra fólkið, sem væri þá að undirbúa sína húsnæðisöflun án þess að hrófla við eftirlaunakerfinu og lífeyrissparnaðinum sem menn geyma með sér eða taka með sér og eiga til efri ára.