143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:39]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég segi fyrir mitt leyti að ég hefði gjarnan þegið að hafa meiri tíma til þess að fara yfir málefni Íbúðalánasjóðs í þessu sambandi. Það hefur fjárlaganefnd að vísu einnig gert og nefndirnar fengu báðar minnisblaðið frá Íbúðalánasjóði þar sem sjóðurinn sjálfur reynir að leggja mat á það en er með mjög stórt verðbil í því, frá 7,5 milljörðum og upp í 24 milljarða kr. Það var vel að merkja áður en séreignarsparnaðarleiðin var stækkuð eða gerð tillaga um að hún yrði stækkuð. Það má leiða að því líkur að efri mörkin séu þá orðin enn þá hærri. Þau eru væntanlega tengd því, sem er ein óvissan enn fyrir Íbúðalánasjóð, það skiptir máli í hvaða stöðu hann verður á næstu missirum og árum þegar og ef umtalsvert auknar uppgreiðslur hefjast. Verður hann horfinn af lánamarkaði þannig að hann eigi þess ekki kost að endurlána uppgreiðsluféð út? Þá verður tapið enn þá meira, og það skýrir hversu stórt bilið er.

Það er alveg ljóst að uppgreiðsluáhættan er enn þá meiri fyrir Íbúðalánasjóð ef verður af hugmyndum um að taka sjóðinn af neytendalánamarkaði því að þá á hann þess ekki einu sinni kost á að endurlána þó það sem hann getur af uppgreiðslufénu, hann tekur að vísu yfirleitt á sig einhvern vaxtamun í þeim tilvikum því að það er lægra vaxtastig í dag. En það dregur verulega úr tapinu við uppgreiðslurnar ef sjóðurinn er áfram virkur og starfandi og getur lánað út, til dæmis ef hann gæti að einhverju marki farið að lána út óverðtryggð lán enda væri hann kominn með lausar krónur í hendurnar og gæti að sjálfsögðu alveg eins lánað þær út óverðtryggt eins og verðtryggt. Þetta er því mikilli óvissu undirorpið.

Það var annar þáttur í sambandi við Íbúðalánasjóð sem var mjög áhugaverður. Menn hafa reynt að halda því fram að það jákvæða við þessar aðgerðir væri að útlánasöfnin muni batna vegna þess að vanskil verði gerð upp og það létti greiðslubyrði fólks. Íbúðalánasjóður gerði ekki mikið með það. Vanskilin 7%–8%, alvarleg vanskil kannski 4% og það hlutfall er svo alvarlegt að þetta mun engu breyta þar um. (Forseti hringir.) Íbúðalánasjóður hefur ekki endurmetið horfurnar á því hversu margar eignir (Forseti hringir.) hann mun þurfa að yfirtaka á næstu mánuðum (Forseti hringir.) þrátt fyrir tilkomu þessa.