144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:21]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju með það að við séum að fara að greiða atkvæði um dagskrána á Alþingi. Það er nefnilega þannig að þegar menn ná ekki saman og eru ósammála þá verða menn einfaldlega að greiða atkvæði og ég vona að minni hlutinn uni niðurstöðu meiri hlutans. Ég vona það vegna þess að ég held að það sé ansi vel í lagt varðandi ræður um fundarstjórn forseta.

Hér er vísað í að það sé einhvern veginn ekki heimilt að taka þetta mál á dagskrá en menn verða að virða niðurstöðu forseta Alþingis. Er ekki tímabært að koma þessu máli í atkvæðagreiðslu á þingi þannig að vilji umhverfisráðherra og annarra þingmanna komi fram? (Gripið fram í: Hann fær ekki að koma fram …) Er það ekki hinn eðlilegi gangur Alþingis Íslendinga? — Segja þeir sem létu okkur tala hér milli jóla og nýárs og sumur og annað. [Frammíköll í þingsal.] (Forseti hringir.) Er ekki eðlilegt að Alþingi fái að ganga sinn vanagang og við þurfum ekki að þola fleiri frekar leiðinlegar ræður um fundarstjórn forseta?