144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég hef komið upp undir þessum dagskrárlið, um störf þingsins, og rætt um það veigamikla viðfangsefni okkar að bæta hér lífskjör og notkun hagtalna í því samhengi. Þær umræður sem hafa tekið stærstan hluta þingstarfanna og dagskrárinnar undanfarið snúast að einhverju marki um lífskjör, um vernd, nýtingu og skynsamlega ráðstöfun auðlinda til að við getum bætt hér lífskjör til framtíðar. Ég ætla ekki að ræða það mál sérstaklega undir þessum lið en mun vonandi gera það undir þeim dagskrárlið síðar í dag.

Þegar mál eru í hnút á Alþingi, eins og umræðan um rammaáætlun hefur verið, og á sama tíma ríkja kjaradeilur á vinnumarkaði er eins og við leyfum okkur að tala allt niður samhliða þeim verkefnum sem sannarlega eru ekki þrautalaus. Tónninn verður neikvæður og allt að því taktfastur og þá er bara alls ekki við hæfi að nota jákvæðar tölulegar staðreyndir, hagtölur sem vísa til þess að ýmislegt gangi vel á Íslandi og að hér sé ekki bara gott að búa heldur allar forsendur til staðar til að bæta lífskjör enn frekar.

Ég ætla því þrátt fyrir allt að leyfa mér að vísa til auðlegðar Íslendinga en þá yfirskrift ber pistill eftir Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands. Þar vísar Stefán í tvær alþjóðlegar skýrslur, aðra frá svissneska bankanum Credit Suisse og hina frá Alþjóðabankanum. Þar er ekkert fullyrt um að allt sé hér í blóma en sannarlega opnar hið glögga gestsauga okkar eigið fyrir því að við búum alla jafna mjög vel og erum rík þjóð.