144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:51]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek nú svona til orða um að Alþingi geti ekki brotið stjórnarskrána vegna þess að það er um það bil það versta sem getur hent Alþingi og alþingismenn, samanber það að við undirritum eiðstaf um að virða stjórnarskrá. Versti vafi sem upp kemur við lagasetningu er stjórnarskrárvafi. Alþingi getur hins vegar að sjálfsögðu breytt lögum ef það stríðir ekki gegn þeim. Gott dæmi um það er ef sérlög marka ákveðnar tekjur til einhvers verkefnis, segjum Framkvæmdasjóðs aldraðra, svo ætlar Alþingi að seilast í þær tekjur í fjárlögum einhverju sinni, hvernig er það þá gert? Er það þá bara gert með því að segja að fjárlögin séu æðri hinum lögunum? Nei, þá er flutt frumvarp, oftast í bandormi, með svokölluðu „þrátt fyrir“-ákvæði, og þá afnemur eða aftengir tímabundið Alþingi hin lögin með því að segja: Þrátt fyrir 8. gr. í þessum lögum um að peningarnir skuli fara í Framkvæmdasjóð aldraðra þá skulu 200 milljónir núna fara í fjárlög. Það eru sem sagt sett önnur lög til að upphefja gildandi lagaákvæði til hliðar. Og það getur staðist.(Forseti hringir.)

En að láta sér detta í hug að hægt sé að sniðganga lög um rammaáætlun með þingsályktun, með niðurstöðu í þingsályktun, er eiginlega ávísun á að menn kunna ekki fyrsta stafinn í stafrófinu um það hvernig þessir hlutir eiga að ganga fyrir sig.