144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:23]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Menn hafa hrópað hneyksli hér í þessum ræðustól af minna tilefni en þessu. Í fréttum RÚV í kvöld kemur fram á vefnum: „Rammaáætlun aldrei nefnd í kjaraviðræðum.“ Með leyfi forseta, segir þar: „Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, telur breytingar á rammaáætlun ekki tengjast viðræðunum eða vera sérstakt innlegg í þær. […] Þeir hagfræðingar sem fréttastofa ræddi við töldu engin bein tengsl vera milli aukinnar orkuöflunar og núverandi kjaradeilna.“

Það er augljóst að hér er um einhvers konar eftiráskýringu að ræða hjá hæstv. forsætisráðherra sem nú er búið að hrekja og sýna fram á að þar stendur ekki steinn yfir steini. Það er von að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson dæsi hér í hliðarsal svo heyrist inn í salinn. Ég mundi gera það líka ef ég væri í hans sporum, í hans þingflokki.