145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni.

[13:42]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Í fjárlögum er heimild til þess að fjölga heilsugæslustöðvum. Rekstrarfyrirkomulagið er ekki löggjafarmál, greiðslufyrirkomulag í heilbrigðisþjónustunni er ekki löggjafarmál, kröfulýsing og skilgreining á þeim kröfum sem gerðar eru faglega um rekstur heilsugæslustöðva er ekki löggjafarmál. Þetta eru allt saman verkefni sem löggjöfin hefur vistað í stjórnsýslunni. (KJak: … pólitískt.) Auðvitað er þetta pólitískt, sú umræða á að fara fram hér og það hefur ekki staðið á þeim sem hér stendur að taka þá umræðu pólitískt, en ákvörðunin er í löggjöfinni falin framkvæmdarvaldinu. Um það hefur ekki verið ágreiningur í þessum sölum í háa herrans tíð eins og ég var að nefna bæði varðandi Lágmúlastöðina og Salastöðina sem er einkarekin heilsugæslustöð. Líftími þeirra spannar allt hið pólitíska litróf (Forseti hringir.) og ég átta mig þess vegna ekki á því hvers vegna verið er að gera þetta stóra mál úr þessu núna. Þetta fyrirkomulag er fyrir hendi í heilsugæslunni í dag og hefur reynst mjög vel.